152. löggjafarþing — 54. fundur,  22. mars 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Baldursdóttur fyrir að gefa mér tækifæri til að útskýra það sem ég var að reyna að segja, ef ég var óskýr. Ég vil fyrst byrja á að segja að ég skrifaði hjá mér nýyrði, í mínum huga, sem hv. þingmaður kom inn á í andsvari við hv. þm. Gísla Rafn Ólafsson sem var athyglisvert og heitir hlustunarróf. Ég velti þá fyrir mér á hvaða hlustunarrófi ég er af því að ég tók vel eftir þessari umræðu um það hvort starfsmenn ættu að hafa atkvæðisrétt eða ekki. Það sem ég vildi segja er að það eru kostir og gallar og ég tók þetta fram í dæmaskyni. Hlutverk fulltrúa starfsmanna á vera hugsað þannig að rödd starfsmanna heyrist í stjórn í umræðum um veigamiklar ákvarðanir þannig að umræddir starfsmenn hafi því hlutverki að gegna í þeirri umræðu, ekkert ósvipað og hinir fimm sem eru þar, að þeir séu talsmenn fyrir þeirri ákvörðun, með forstjóra, inn á gólfi. Ég held að það séu algjörlega bæði kostir og gallar við það að þurfa síðan að greiða atkvæði með ákvarðanatöku vegna þess að það geta verið önnur sjónarmið sem þeir geta komið að og þeir munu alltaf taka þátt í þeirri umræðu. Mér finnst þetta ekkert útilokað og ég tek undir það sem hv. þingmaður segir hér, auðvitað eigum við að kalla eftir umsögnum þeirra aðila og skoðunum á því hvernig með þetta er farið. Ég held að hvort tveggja sé til. Hér er valin ekkert ósvipuð leið, eins og ég sagði, og er farin á Karolinska sjúkrahúsinu.