152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

markmið með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[11:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar áform um að selja ætti Íslandsbanka voru fyrst birt var gert ráð fyrir því að ekki meira en 25% af hlutabréfum bankans yrðu seld. Svo fór að 35% hlutabréfanna voru seld. Salan var harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni og í umsögnum sérfræðinga, og þá sérstaklega vegna undirverðlagningar og þess að mikið vantaði upp á rökstuðning, til að mynda vegna samkeppnissjónarmiða. Svo fór að lokum að hlutabréfin í bankanum hækkuðu eftir söluna um rúmlega 50% á hálfu ári og kepptist ríkisstjórnin, og allir sem höfðu mælt með sölunni, við að segja að þetta hefði verið gríðarlega vel heppnuð sala. Það er bara sjálfsblekking í algjöru hámarki. Sérfræðingar í þessum málum miða við að við svona frumútboð sé um 5–10% hækkun merki um vel heppnað útboð. Og hvað þýðir það í samhengi þessarar sölu? Það þýðir að um tæplega 30 milljarðar voru gefnir út úr ríkissjóði. Fyrir söluna í fyrra sagði ráðherra að hámarksverð væri ekki aðaláherslan en í minnisblaði og tillögu ráðherra til Alþingis var eitt af helstu markmiðunum með sölu ríkisins: að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum. Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sagði skýrt:

„Markmið með sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka eru m.a. þau að minnka áhættu ríkisins af eignarhlutum í fjármálakerfinu, að styðja við virkari samkeppni og um leið að hámarka endurheimtur ríkisins af eignarhaldi fjármálafyrirtækja. Með sölunni verður hægt að minnka lánsfjárþörf ríkissjóðs og bæta þannig lánshæfismat hans og styrkja stöðu ríkisins á fjármagnsmörkuðum. Með því eykst svigrúm ríkissjóðs til að ráðast í arðbær verkefni til framtíðar.“

Hvað svo sem ráðherra segir þá var það eitt helsta markmiðið, alla vega það sem þingið fékk í hendurnar, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs. Raunin varð sú að 30 milljarða munur var á söluverði og markaðsverði. Ríkið fékk 55 milljarða en það hefðu átt að vera 85 milljarðar. Hvernig getur ráðherra sagt að salan hafi verið vel heppnuð þegar ríkissjóður tapaði 30 milljörðum kr.?