152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

markmið með sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[11:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ráðherra segir hér að dreift eignarhald hafi verið markmiðið en eins og þingið fékk þetta í hendurnar voru helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka að minnka áhættu ríkisins á svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi, að auka fjárfestingarmöguleika innlendra einstaklinga og að minnka skuldsetningu og auka svigrúm ríkissjóðs.

Er það 30 milljarða kr. virði — einföld spurning myndi ég segja — að taka tillit til annarra þátta en að hámarka endurheimt? Er það góð vænting? Er það eitthvað sem við búumst við að sé fyrirsjáanlegt? Var það þannig sem ríkið sagði það: Við ætlum að ná dreifðu eignarhaldi en það mun kosta 30 milljarða að ná því markmiði? Nei, það kom aldrei fram. Það vantaði rökstuðning.

Í sölunni sem fór fram um daginn (Forseti hringir.) þá kom t.d. fram í fréttum Morgunblaðsins að þrír aðilar (Forseti hringir.) sem keyptu þar hefðu verið á innherjalista fjárfesta. (Forseti hringir.) Skiljanlegt kannski, þegar salan gengur svona hratt fyrir sig, (Forseti hringir.) að slík mistök komi upp, en er það eðlilegt að aðilar á innherjalista kaupi í svona útboði?