152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjáraukalög 2022.

456. mál
[14:21]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2022 um breytingar á fjárheimildum sem leiða af breyttri skipan Stjórnarráðsins í samræmi við forsetaúrskurð. Þessu frumvarpi er einungis ætlað að endurspegla á tæknilegan hátt þær breytingar sem orðið hafa á Stjórnarráðinu og sem gerð hefur verið grein fyrir í forsetaúrskurði, þ.e. að aðlaga framsetningu fjárheimilda að breyttri skipan ráðuneyta. Með þessu sérstaka fjáraukalagafrumvarpi er því verið að tryggja fjárheimildir málefnasviða, málaflokka og ráðuneyta fyrir árið 2022, tryggja að þær verði í fullu samræmi við breytta skipan Stjórnarráðsins sem tók gildi 1. febrúar síðastliðinn.

Hér er um fjáraukalög að ræða. Ég geri athugasemd við það að þetta mál sé sett fram í formi frumvarps til fjáraukalaga. Í 26. gr. laga um opinber fjármál segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Hér er ekki um tímabundna ráðstöfun að ræða, hér er ekki um ófyrirséð fjárútlát að ræða og hér er ekki um óhjákvæmileg fjárútlát að ræða. Þetta er tæknileg breyting sem á sér stað þar sem verið er að aðlaga framsetningu fjárlaga að breyttri skipan ráðuneyta. Það er nánast verið að flytja á milli bókhaldslykla, ef það má orða það svo. Ég hef ekki fundið neitt sem leiðir til þess að ekki sé hægt að koma með breytingu til fjárlaga og breyta því bara þannig. Ég veit að í 23. gr. er talað um breytingar á frumvarpi til fjárlaga, en ég tel að þessi grein eigi ekki við þær breytingar sem hér eiga sér stað.

Það sem er hér undir líka eru lög um Stjórnarráð Íslands. Það er vitnað í það í greinargerðinni. Í 21. gr. laganna segir:

„Við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta […] skal flytja fjárheimildir og starfsmenn milli ráðuneyta að því marki sem eðlilegt er talið að teknu tilliti til umfangs verkefna og aðstæðna.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Viðkomandi ráðuneyti skulu gera með sér samkomulag um flutning fjárheimilda og starfsmanna milli ráðuneyta […]. Ráðherra sem fer með fjármál ríkisins setur viðmið um fjárhæðir vegna flutnings stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Takist samkomulag ekki innan tveggja vikna frá því að forsetaúrskurður skv. 1. mgr. 4. gr. er gefinn út sker forsætisráðherra úr.“

Það liggur ekkert fyrir um að það sé samkomulag milli ráðuneytanna um flutning á málefnum á milli á grundvelli forsetaúrskurðarins. Það má líka velta því fyrir sér hvort það hafi verið óþarft að koma með þetta fyrir þingið þar sem búið er að veita fjárheimildirnar í fjárlögum. Hérna er einungis verið að tala um breytingar á málefnasviðum. Það átti bara að gera það í breytingum til fjárlaga, ekki í því formi sem hér er verið að gera. Ég segi ekki að verið sé að misnota ákvæði 26. gr. en það á bara ekki við. Þetta áttu að vera breytingar á frumvarpi til fjárlaga og líka að byggja þetta samkomulag á grundvelli 21. gr. sem hefði svo mátt senda til þingsins eða til fjárlaganefndar og þá hefði verið hægt að setja þetta inn á rétta lykla þar. Þetta er spurning um framsetningu og ekkert annað.

Það sem hefði mátt vera í þessu frumvarpi og ég bjóst við upphaflega er að verið væri að bregðast við a.m.k. vaxandi verðbólgu og hækkandi húsnæðisverði. Það var ekki gert og það er miður vegna þess að einmitt núna á vormánuðum hefur húsnæðisverð haldið áfram að hækka og verðbólgan mun halda áfram að hækka. Við getum líka tekið dæmi: Nú er stríð í Úkraínu sem hefur gríðarleg áhrif á matvælaverð sem stjórnvöld þurfa að bregðast við. Verðbólgan má ekki fara úr böndunum, ríkisstjórn og Alþingi þurfa að bregðast við sem allra fyrst. Það hefði þurft að gera með fjáraukalögum, með því t.d. að auka fjárframlög til byggingar húsnæðis, þ.e. auka framboð á húsnæði og líka til að koma í veg fyrir eða draga úr verðbólgu. Ég var að vonast til þess að það yrði gert en svo var ekki.

Ég tel að hér séu ekki færð nægileg rök fyrir því í greinargerðinni að nota 26. gr. laga um frumvarp til fjáraukalaga. Skilyrðin eru ekki fyrir hendi. Ég vil benda á það líka að greinargerð frumvarpsins byrjar á því að vitna til 16. gr. laga um opinber fjármál sem segir að í frumvarpi til fjárlaga skuli m.a. greina frá fjárheimildum ríkissjóðs til málefnasviða og málaflokka, sundurgreindum eftir ráðuneytum í samræmi við forsetaúrskurð. Hérna er bara tæknileg breyting á fjárlögunum sem hefði átt að gera með öðrum hætti. En það getur vel verið að það vanti ákvæði um þetta, það er ekki ákvæði í lögum um opinber fjármál um að sé hægt að koma með breytingartillögu til fjárlaga sem búið er að samþykkja. En það er ekkert sem segir að það megi ekki gera það. Ég tel að þetta sé akkúrat klassískt dæmi um að hægt er að gera það og þá líka á grundvelli 21. gr. laga um Stjórnarráð Íslands þar sem gert er ráð fyrir samkomulagi milli ráðuneytanna. Þá er það þannig að þú ert með forsetaúrskurð þar sem málefnin eru flutt til og svo semja ráðuneytin sín á milli um að flytja fjárheimildina frá einu ráðuneyti til annars á grundvelli forsetaúrskurðarins, því að Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið, er þegar búið að samþykkja það að veita fjárveitingarnar sem hér er verið að fjalla um.