152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Af því að hv. þingmaður var að velta fyrir sér áhuga einstakra þingmanna og flokka á því að styðja við bakið á listamönnum, og yfir höfuð á listamannalaunum, þá get ég sagt fyrir sjálfan mig að ég hef ávallt haft mikinn áhuga á þessum geira og hef alltaf verið þessarar skoðunar. Sem ungur maður sótti ég meira að segja um í listaskóla en ekkert varð úr þeim frama, ég settist aldrei þar á skólabekk. Hefði kannski átt að gera það. Ég reyni að sækja sýningar og annað slíkt og hef alltaf haft gaman af því og af því að við höfum talað mikið um Úkraínu hér þá þekki ég vel listamenn í Úkraínu sem hafa komið hingað til Íslands á mínum vegum og m.a. myndlistarmann sem er nú kominn með nýtt hlutverk í sínu landi, er kominn í herklæði sem er alveg ótrúlegt. Mikill og flottur listamaður, hefur sýnt í þekktum söfnum víða um heim og gegnir nú herþjónustu í Úkraínu. Hann sagði við mig að það væri þekkt með myndlistina að ef maður stendur fyrir framan fallegt verk þá kallar það fram ákveðna vellíðan hjá viðkomandi einstaklingi og hann lýsti þessu svakalega vel. Ég er alveg sömu skoðunar. Þetta er mjög mikilvæg grein og við eigum að styðja við bakið á henni. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um unga fólkið og að sjálfsögðu styð ég að það sé reynt að hjálpa því sem mest því að það er kannski erfiðasti tíminn þegar menn eru að byrja og hætta á að þeir hætti og heltist úr lestinni þannig að ég styð það að sjálfsögðu. En ég hjó eftir þessu, að það var sérstaklega nefnt þetta aldursviðmið.