152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að formaður allsherjar- og menntamálanefndar var búinn að óska eftir því að koma á mælendaskrá í kjölfar þessarar umræðu, sérstaklega varðandi heiðurslistamannalaunin, vegna þess að það er einmitt það sem mig langaði að nefna hér. Þó að við séum ekki að tala um heiðurslistamannalaun hér, við erum að tala um starfslaun listamanna, þá er það samt þannig að í umræðunni blandast svolítið saman við.

Það er rétt sem hér hefur komið fram og var skýr ákvörðun fyrir jól, að við í allsherjar- og menntamálanefnd hyggjumst endurskoða lög um heiðurslaun listamanna. Við erum farin af stað í þeirri vinnu og hluti af þeirri vinnu var einmitt að fá fulltrúa frá ráðuneytinu, sem hafa verið að vinna á þessum vettvangi, til að koma til fundar við okkur. Þannig að ég hef beðið þess með óþreyju að fá þetta ágæta frumvarp inn í nefndina, bæði til þess að við getum tekið samtal við ráðuneytið um það sem hér liggur fyrir, en líka um listamannalaunin og sýn ráðuneytisins á það heildstætt því að ég tel að það muni hjálpa okkur í þeirri vinnu sem fram undan er um endurskoðun heiðurslistamannalaunum. Ég vil bara segja það, svo það hafi örugglega verið sagt hér og ítrekað, að sú endurskoðun felur það ekki í sér að leggja niður lög um heiðurslistamenn. Það er ekki hluti af þeirri endurskoðun. En hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom bara heiðarlega fram með sína afstöðu, sem hann hefur svo sem oft ítrekað hér í ræðustól, að hann vilji leggja þau lög niður.

Aftur á móti hafa komið upp ýmsar vangaveltur í nefndinni um heiðurslaunin og hvaða tilgangi þau eigi að þjóna, m.a. þegar tekin er ákvörðun um að setja aðila á heiðurslistamannalaun, hvort það sé þá eðlilegt að viðkomandi sé á þeim til dauðadags, eins og lögin gera raunverulega ráð fyrir í dag. Ætti að vera hægt að taka einhvern af listanum ef þingið væri sammála um það, ef svo bæri undir, eða ætti þetta að vera greiðsla til eins árs eða tveggja ára í senn? Er eðlilegt að greiðslurnar skerðist við ákveðinn aldur, eins og lögin segja til um nún? Síðan en ekki síst er framkvæmdarlegi þátturinn á því hvernig heiðurslistamannalaun verða veitt. Þetta er allt það sem við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hyggjumst skoða núna á næstu misserum.

En að þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir. Mig langar að segja að ég held að það sé alveg ofboðslega mikilvægt að við hugsum vel um listir og menningu. Ég held að listir og menning séu ekki bara — og nú nota ég orðið „bara“, það er kannski ekki rétt að nota það — það bætir lífsgæði fólks og þjóðarinnar, menningin skiptir okkur máli. En það er ekki síður það að við erum að horfa hér á fleiri stoðir í íslensku atvinnulífi. Við sjáum að hugverkaiðnaðurinn hefur fest sig í sessi sem fjórða stoðin í útflutningi þjóðarbúsins. Útflutningstekjurnar hafa hækkað umtalsvert og það er auðvitað ekki allt listir og menning en er hluti af því, svo sannarlega, og ég held að skapandi greinar og hugverkaiðnaðinum sem slíkur byggi á menningu og það byggir á kunnáttu, þekkingu og hæfni fólks til að hugsa út fyrir boxið og til að skapa nýja hluti.

Ég hef alveg bullandi trú á skapandi greinum og ég hef bullandi trú á íslenskum mannauði og íslenskum listamönnum. Ég held þess vegna að við þurfum að vanda mjög til verka og leggja okkur öll fram við að búa þessari atvinnugrein góð starfsskilyrði. Ég held til að mynda að þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu núna í upphafi þessa kjörtímabils skipti miklu máli þó að þær hafi verið gagnrýndar hér. Eitt af því er m.a. að hæstv. ráðherra, sem nú er menningar- og viðskiptaráðherra, var áður hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, fór fyrir gríðarlega stóru ráðuneyti með undirstöðu menningar í landinu á öllum skólastigum. Þá heyrðist gjarnan í listageirann um að það vantaði sérstakt ráðuneyti fyrir menningarmál. Listamönnum fannst þeir týnast inni í þessu ofboðslega viðamikla ráðuneyti þar sem íþróttamálin og annað þess háttar var. Þannig að ég held að til að mynda það að taka saman menningu og viðskipti sé stórt og mikilvægt skref í að byggja enn frekar undir þennan starfsvettvang skapandi greina þar sem við virkjum mannauð listamanna hér á landi.

Og aðeins út af því að ég sé að fólk fer hér í andsvör og það tengist örugglega einhverjum fyrirvörum — ég setti ekki fyrirvara við þetta frumvarp sem hér er, en það er alveg þannig að það eru skiptar skoðanir um listamannalaun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eins og mjög víða í samfélaginu og við þurfum að finna leiðir til að móta fyrirkomulag sem flestir geta sætt sig við.

Þetta frumvarp er svolítið lagt fram á þeim forsendum að við séum að horfa á áhrif kórónuveirufaraldursins og við vitum auðvitað að kórónuveirufaraldurinn hafði áhrif á samfélagið allt. Það hafði samt alveg ofboðslega mikil áhrif á sviðslistafólk, sérstaklega. Ég held að það sem við þurfum að spá í í þessu efni, og ég hef skilið þessar vangaveltur um fyrirvara þannig, sé hvort það sé nokkuð þannig að þessi leið væri að umbuna einhverjum sem þegar hefðu fengið styrki úr öðrum áttum en aðrir féllu mögulega milli skips og bryggju.

Við fáum þetta mál til umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég hlakka til að takast á við það og hlakka til að fá umsagnaraðila til að fjalla um þetta mál. Ég held að það gefi okkur í nefndinni góðan grunn til að undirbúa okkur fyrir næstu ár, næstu þing, þar sem ég vænti þess að skapandi greinar verði ofarlega á lista.