152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum sína yfirferð. Mig langar einmitt að spyrja út í fyrirvarana vegna þess að þó að hv. þingmaður hafi sjálf sagst ekki hafa gert fyrirvara við afgreiðslu málsins út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins þá hafi einhverjir þingmenn gert það. Mér finnst eiginlega bagalegt að við séum ítrekað að fá til afgreiðslu mál sem njóta ekki fulls stuðnings stjórnarflokkanna án þess að við vitum nákvæmlega hvers vegna. Fyrirvarar hljóta alltaf að vera fyrirvarar um að eitthvað gerist í þinglegri meðferð, að fólk vilji sjá eitthvað ákveðið breytast. Ef ég man rétt á meira að segja að gera tilsvarandi ráðherra grein fyrir fyrirvara samhliða því að Stjórnarráðinu er tilkynnt um afgreiðslu máls úr þingflokki. Þannig að ég velti fyrir mér hvort við ættum kannski að fara að taka upp þann sið þegar mál ganga til nefndar að nefndinni sé bara gerð grein fyrir fyrirvörum þingflokka í heild eða hluta sem gerðir hafa verið við málin svo að við hin vitum efnislega hvernig við eigum að takast á við málin, hvort við séum að berjast við einhver atriði í málinu sem þingflokkarnir hafi hvort eð er sín á milli gert það mikinn fyrirvara við að við þurfum ekkert að taka á þeim. Þetta er kannski svona almennari vangavelta en mig langar samt að vita hver fyrirvarinn er í þessu tiltekna máli. Þó að ekki hafi það verið hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sem gerði fyrirvara, hvaða fyrirvarar koma út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Hvað er það sem samflokksmenn þingmannsins vilja sjá okkur breyta á þessu máli í meðferð allsherjar- og menntamálanefndar?