152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa yfirferð. Það er auðvitað áhugavert að vita hvort flokkar hafi gert fyrirvara við mál vegna þess að stundum er það þannig sem mál eru drepin. Við munum t.d. eftir hálendisþjóðgarðinum sem var hér til umfjöllunar síðasta vetur og þingflokkur Framsóknar gerði mílulangan fyrirvara við þannig að öllum varð ljóst frá þeim degi að málið myndi ekkert fara lengra. Þingflokkur Framsóknar birti einmitt þann fyrirvara og mér finnst það til fyrirmyndar.

Þetta er hugtak sem truflar mig alltaf pínu, almennur fyrirvari. Ég held að fólk þurfi kannski aðeins að líta inn á við hvort það sé eitthvað sem er hægt að gera. Ég held að fyrirvari við mál þurfi að vera sértækur að því leytinu að hann segi efnislega hvað það er sem þú gerir fyrirvara við og jafnvel hvaða áhrif þú telur að sú skoðun þín eigi að hafa. Almennur fyrirvari segir ekki neitt. Það segir ekki hvort þú ætlir að þvælast fyrir málinu, hvort þú viljir sjá það breytast eða hvort þú sért bara symbólskt að segjast vera eitthvað pínu skeptískur á málið en ætlir ekkert að vera með neitt vesen.

Þetta var útúrdúr, frú forseti. Ég ætlaði bara að nefna það sem ég ræddi í umræðunni um síðasta mál, fjáraukalagafrumvarpið sem er gengið til fjárlaganefndar, að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi væntanlega að skoða í þessu máli samhengið við það frumvarp þar sem í áhrifamati á því frumvarpi sem við ræðum hér núna stendur að gert sé ráð fyrir fjárhagsáhrifum í útgjaldaramma málaflokks 18.30 í fjáraukalögum 2022 en þær 100 milljónir hef ég ekki fundið í fjáraukalagafrumvarpinu sem við vorum að afgreiða til fjárlaganefndar fyrr í dag. Þetta samskiptaleysi (Forseti hringir.) á milli ráðuneytanna sem hefur valdið því að þessi tvö frumvörp virðast ekki tala almennilega saman er eitthvað sem ég treysti allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd til að laga sín á milli.