152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:24]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Varðandi seinni hlutann, fjárhagslegu áhrifin á þetta frumvarp, þá verð ég reyndar að viðurkenna að ég stóð fyrst í þeirri meiningu að við hefðum gert töluverðar breytingar í fjárlögunum varðandi þennan lið. Nú sit ég í hv. fjárlaganefnd líka þannig að ég minnist þess mjög. Við vorum alla vega að tala um hækkun á listamannalaunum þar. Það kann einmitt að vera að þetta frumvarp sé víðtækara en það og, eins og hér stendur, að eitthvað þurfi líka að koma fram í fjáraukalögunum. Að sjálfsögðu munum við horfa til þess og fylgja því eftir.

Aðeins varðandi hinar vangaveltur hv. þingmanns um almenna fyrirvara — og hér erum við ekkert að ræða um þetta frumvarp heldur bara það áhugaverða umræðuefni sem eru fyrirvarar við stjórnarfrumvörp — þá hef ég litið þannig á, og mér finnst það reyndar mikilvægt, að þingið sé sjálfstætt í störfum sínum. Þegar stjórnarþingmaður samþykkir þingmál út úr sínum flokki þá alla jafna er hv. þingmaður að viðurkenna að hann muni styðja frumvarpið í endanlegri mynd út úr þingsal. En auðvitað sleppa ráðherrarnir tökum á sínum málum eftir að 1. umr. lýkur. Þá vísar hæstv. ráðherra þessu máli inn í þinglega meðferð. Ég tel það hafa verið þannig á síðustu árum að það hafi færst í aukana að þingnefndir séu að breyta málum. Ég held að það sé dæmi um ákveðinn styrk hjá þinginu að þingið virki ekki eins og einhver stimpilpúði heldur sé tekið mark á þeim umsögnum og því starfi sem á sér stað inni í nefndinni. Ég var sérstaklega vör við þetta á síðasta kjörtímabili þar sem ég sat til að mynda í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og við fengum töluvert af málum tengt kórónuveirunni og þau tóku töluverðum breytingum inni í nefndinni. Þannig að ég er alls ekki sammála hv. þingmanni um að einhver svona almennur fyrirvari sé algerlega óþarfur ef viðkomandi þingmaður kann að hafa einhvers konar efasemdir. Hann hleypir málinu engu að síður fyrir sitt leyti inn í þinglega meðferð (Forseti hringir.) en hann er ekki endilega að lofa því að ýta á græna takkann að þeirri meðferð lokinni.