152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[17:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nú kannski fyrst og fremst að reyna að botna í málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins hér. Það er talað eins og það mætti kannski útiloka það listafólk sem hefur fengið sérstaklega mikið af bótum, það er orðið sem var notað. Það er væntanlega verið að tala um eitthvað af þeim styrkjum eða almennu stuðningsúrræðum sem hefur verið ráðist í. Ég veit það ekki. Ef það stendur eitthvað slíkt til af hálfu stjórnarliða, að fara að hræra í þessu frumvarpi og setja inn svoleiðis skilyrði eða setja úthlutunarnefndunum svoleiðis skilyrði, að það eigi að fara í einhverja rannsóknarvinnu um það hvort umsækjendur hafi fengið einhvern stuðning á fyrri stigum heimsfaraldursins, þá líst mér ofboðslega illa á það. En það sem þessi umræða endurspeglar kannski er að fólk virðist hafa mjög mismunandi hugmyndir um það í rauninni hvert markmiðið hér á að vera. Þetta er frumvarp sem felur í sér í raun að fjölga listamannalaunum og jú, það eru ákveðnar kríteríur. Þarna er verið að gera ráð fyrir að langstærsti hlutinn renni til ungs fólks. Ef meiningin væri og ef vilji fjölda fólks í stjórnarliðinu stendur til að styðja við listageirann með einhverjum allt öðrum hætti og huga sérstaklega að þeim sem hafa orðið fyrir mestu tekjufalli eða eru í fjárhagskröggum, þá þyrfti að útfæra þetta allt öðruvísi. Þá hlýtur það að vera krafa að það verði farið með málið aftur inn í ráðuneytið og þetta gert með allt öðrum hætti. Þetta er tvennt ólíkt, annars vegar að fjölga listamannalaunum og hins vegar að (Forseti hringir.) ráðast í sértækar aðgerðir fyrir fólk í fjárhagskröggum. Ég er bara að reyna að átta mig á því hvað það er (Forseti hringir.) raunverulega sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að kalla eftir að sé gert með þetta frumvarp.