152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

listamannalaun.

408. mál
[18:33]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var engin óeining í ríkisstjórn. Ég var fyrst núna að heyra af þessari skoðun hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Ég held að hann sé nú upplýstari um stöðuna, af hverju við erum að fara í þessar aðgerðir. Ég vil ítreka að þær eru sértækar og ég tel að þannig eigum við að fara í þetta. Auðvitað hefur ómíkron verið að þróast og við höfum séð hvernig þetta er. Ég er ekki í nokkrum vafa um að frumvarpið muni verða samþykkt hér og ég vonast eftir því að allsherjar- og menntamálanefnd muni líka taka frumvarpið fyrir og bæta það. Það sem er gott við þinglega meðferð eru einmitt athugasemdirnar og þær umræður sem eiga sér stað hér í þingsal og sérstaklega í nefndarstarfinu. Það er mín reynsla, eftir að hafa verið mennta- og menningarmálaráðherra og áður utanríkisráðherra, að það sé mjög gott að koma með frumvörp inn í þingið og eiga þessar umræður og flestar nefndir gera þessa hluti mjög vel.