152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er talað um vönduð vinnubrögð, að Píratar hefðu ekki ástundað nógu vönduð vinnubrögð við gerð frumvarps um afglæpavæðingu vörsluskammta vímuefna. Þetta sagði hæstv. innviðaráðherra fyrir stuttu í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Mér finnst frekar óeðlilegt af hæstv. ráðherra að halda þessu fram vegna þess hversu ótrúlega mikla umræðu og vinnu málið hefur fengið allt frá 2015 þegar það var sett fyrst á dagskrá hér. Ég vildi bara koma upp til þess að bera sakir af þinginu sem hefur lagt gríðarlega mikla vinnu í þetta og er alltaf að lenda í því að stjórnarmeirihlutinn hendir málinu af dagskrá og kemur með þá aumu afsökun að það þurfi að undirbúa það betur. Þau eru ófá málin sem hafa fengið að fara í gegn án þess að vera með nokkrum hætti undirbúin. Við erum upptekin við það í nefndum þingsins, á hverjum degi liggur við, að laga illa búin mál aftur og aftur. En þetta mál er búið að vera til umræðu síðan 2015, (Forseti hringir.) það liggja að baki mjög ítarlegar greiningar og vinna og það er ekki sanngjarnt gagnvart þinginu að segja að það hafi ekki undirbúið málið. Þetta er einfaldur fyrirsláttur.