152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um vönduð vinnubrögð í hv. velferðarnefnd þegar mál er varðaði afglæpavæðingu neysluskammta var til meðferðar. Við fengum inn urmul gesta, tókum vandlega yfirferð yfir umsagnir, löguðum það sem þurfti að laga. Við tókum tillit til þess sem nefndarfólk hafði um málið að segja, það voru skiptar skoðanir, þannig að málið var unnið frá A til Ö í nefndinni. Það er auðvitað ekki rétt sem kom fram í máli hæstv. innviðaráðherra að málið hafi ekki verið nógu vel unnið. En ég kem hingað upp aðallega til þess að leggja fram kvörtun yfir því að hér á þingfundi fyrir helgi hafi hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra gengið milli þingmanna í þingsal og kvartað yfir því að þingmenn, stjórnarliðar (Forseti hringir.) og stjórnarandstöðuþingmenn, væru að taka þátt í mjög eðlilegri umræðu. Það er algerlega ótækt að slík staða sé uppi, (Forseti hringir.) að ráðherra gangi á milli og kvarti yfir því að þingmenn séu að taka þátt í eðlilegri umræðu. (Forseti hringir.) Ég óska eftir liðsinni forseta að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.