152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp eiginlega í sömu erindagjörðum og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, að lýsa upplifun minni á því hvernig mál Pírata um afglæpavæðingu var unnið í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili. Það var unnið af slíkri alúð og vandvirkni að, ég ætla bara að segja það hreint út, mér þótti nú eiginlega nóg um þann tíma sem fór í þetta mál, bæði í nefndinni og hér í þingsal. Þannig að hafi ráðherrar ríkisstjórnarinnar áhuga á því að tefja málið eða stöðva það, og þá vísa ég í þeirra eigið mál því að nú er það ekki þingmannamálið sem er á dagskrá heldur stjórnarmál um afglæpavæðingu, svona „on and off“, svo ég leyfi mér að sletta, frú forseti, afsakaðu það, þá held ég að þeir verði að vera fólk til þess að leita skýringanna annars staðar en í vinnubrögðum velferðarnefndar Alþingis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það var ekkert upp á hana að klaga í þessu máli nema mögulega að það fór aðeins of mikill tími í þetta.