152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég hef orðið vör við ákveðið þekkingarleysi á því hvað afglæpavæðing felur í raun í sér. Við hv. þm. Tómas A. Tómasson vil ég segja að við skulum glöð taka samtalið við hv. þingmann og útskýra fyrir honum hvernig afglæpavæðingarfrumvarpið virkar og hvaða réttaráhrif það hefur o.s.frv. Hann er nýr hér á Alþingi og missti kannski af þeim miklu umræðum sem voru um málið á síðasta kjörtímabili. En þá afsökun hefur hæstv. innviðaráðherra ekki og þá afsökun hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki fyrir að rugla saman hugtökum um regluvæðingu, lögleiðingu og afglæpavæðingu, fyrir að koma hér með einhverjar fabúleringar um að kannski vanti einhver meðferðarúrræði áður en hægt verði að koma þessu máli í framkvæmd. Þetta er allt byggt á mikilli vanþekkingu. Mér finnst lágmark að formenn þessara flokka sem hafa sagst ætla að afglæpavæða vörslu neysluskammta (Forseti hringir.) kynni sér þá a.m.k. um hvað málið snýst áður en þeir fara að bulla (Forseti hringir.) í fjölmiðlum um hluti sem þeir hafa greinilega ekkert vit á.