152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það var eitt mál í viðbót sem kom fram í umræðunni áðan sem mig langar til að vekja athygli forseta á. Þar var hæstv. heilbrigðisráðherra að tala um nýja skýrslu um stöðuna í heilbrigðiskerfinu og var að hvetja þingið til að taka skýrsluna til umræðu. Mig langar til að ítreka þá beiðni til forseta. Skýrslan, eins og maður hefur náð að líta yfir hana á þessum stutta tíma síðan hún kom út, lýsir einmitt því sem er búið að vera að segja á undanförnum árum. Það er búið að vera að segja þinginu nákvæmlega hver staðan er og það er staðfest í þessari skýrslu. Á undanförnum árum höfum við reynt að glíma við þau vandamál sem hefur verið bent á í fjármálaáætlun og fjárlagagerðinni en ekkert hefur verið gert. Nú loksins erum við komin með skýrslu frá óháðum aðila sem segir nákvæmlega það sama og heilbrigðiskerfið hefur verið að segja okkur þingmönnum í mörg ár. Þá tel ég vera mjög gott tilefni til að ræða það alvarlega hér í þingsal. (Forseti hringir.) Ég hvet því virðulegan forseta til að taka þessa áréttingu hæstv. heilbrigðisráðherra alvarlega.