152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Það er kannski ekki nema von að við spyrjum okkur stundum hvort hugur fylgi virkilega máli hjá ríkisstjórninni þegar kemur að skaðaminnkun gagnvart vímuefnaneytendum. Við erum hér að ræða slugsið varðandi afglæpavæðinguna en rifjum líka upp árið 2019 þegar við vorum með neyslurýmin til umfjöllunar í velferðarnefnd. Þá kom í ljós, í byrjun árs 2019, að heilbrigðisráðuneytið hafði ekkert samráð átt við dómsmálaráðuneytið. Málið brotlenti rækilega í velferðarnefnd vegna þess að dómsmálaráðuneytið hafði af veikum mætti reynt að eiga samráð við heilbrigðisráðuneytið áður en málið kom til þingsins en ekki náð að hafa áhrif á hvernig málið var vaxið eða kom hingað. Þetta náttúrlega gekk ekki. Þarna þurfti að ná samspili á milli velferðarkerfisins og réttarkerfisins þannig að velferðarnefnd náði saman um það, var einhuga um að vísa málinu aftur til föðurhúsanna og biðja ráðuneytið að vinna það almennilega. (Forseti hringir.) Góðu heilli kom það um haustið betur unnið og við náðum að klára það en það var ekki vegna mikils vilja stjórnarliða (Forseti hringir.) heldur vegna þeirrar vinnu sem stjórnarandstaðan lagði í málið í velferðarnefnd.