152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:34]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil að sjálfsögðu í upphafi þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir þau svör sem hann kom með hér. Ég held að þetta sé mál málanna og það er oft erfitt að koma umræðu um fæðuöryggi á dagskrá og umræðu um matvælaframleiðslu fyrr en að vöruna vantar úti í búð og verðin hafa hækkað. Það er akkúrat sú mynd sem blasir við okkur á næstu mánuðum. Stríðið núna, innrás Rússa í Úkraínu, þessa síðastliðna mánuði er aðeins viðbót á því ástandi sem hafði teiknast hér upp á undanförnum mánuðum og misserum. Kornverð hafði hækkað, bundið við orkuverð, það er skortur á aðföngum eins og áburði. Þetta er allt saman umræða sem við höfum áður tekið í þessum sal og brugðist við með ákveðnum hætti. En það eru fleiri breytur þarna úti eins og bara t.d. það að Kína ákvað að banna notkun á matvælaleifum til svínafóðurs sem jók innflutningsþörf á maís til Kína upp í 30 milljónir tonna úr 5 milljónum tonna. 40% af öllum maís og hveiti af ökrum bandarískra bænda fara til eldsneytisframleiðslu og þar er eftirspurnin núna vegna orkuverðs enn meiri. Þetta er allt saman tákn í stóru myndinni sem við verðum að taka alvarlega og horfa heim til okkar.

Ég vil beina því til hæstv. forsætisráðherra, um leið og ég segi að ég var ánægður með svör hennar og þá vinnu sem komin er í gang, að við þurfum á þessum tíma að huga að því að bæta sambönd okkar og styrkja viðskiptasambönd til að tryggja okkur fæðuframboð og aðfangaframboð á næstu mánuðum og misserum. Ég held að við megum raunverulega engan tíma missa í þeim efnum. Ég býst við að sú vinna sem nú er farin í gang geti skilað okkur þeim árangri. En fyrst og síðast held ég, virðulegur forseti, að við verðum að horfa til umgjarðar landbúnaðarins hér og styrkja hana og bæta og hvetja bændur til að slá hvergi af í framleiðslu á þessum viðsjárverðu tímum.