152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:43]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Frú forseti. Lítum á atburði líðandi stundar, jafn hörmulegir og þeir eru þeim sem þar eigast við, sem hvatann sem okkur hefur kannski vantað til að auka, ekki bara fæðuöryggi heldur öryggi okkar og öryggistilfinningu okkar því að eðlilega eru margir hér í vanlíðan og kvíðnir yfir því sem er að gerast í heiminum. En fæðuöryggi er auðvitað bara ein hliðin á teningnum. Við viljum tryggja blómlega byggð um allt land. Það hangir saman við þann meginbúskap sem ferðaþjónustan er orðin á Íslandi. Ekki viljum við hafa hér yfirgefin eyðibýli þar sem enginn búskapur á sér stað. Við vitum að hollmetið sem við höfum hér í þessari matvælakistu við endimörk hins byggilega heims, eins og landið hefur stundum verið kallað — við eigum auðvitað gríðarleg verðmæti í sjó, í lofti og á landi. Kannski var það meginástæðan fyrir því að munkarnir frá Írlandi tóku sér bólfestu hér á sjöttu, sjöundu öld. En hér hefur verið talað um hvata og efndir og „aksjón“ og allt slíkt. Þetta er kærkomið tækifæri til að gera akkúrat þetta, efla hér matvælaframleiðslu, bæði í því eðlilegasta samhengi sem búskapurinn er, við erum með eldið sem er að verða hér jafn verðmætt og sjálfur fiskkvótinn í sjónum sem enn er sífellt rifist um. Við eigum ýmsa möguleika aðra á því að tryggja matvælaöryggi og efla öryggiskennd með íslenskri þjóð á viðsjárverðum tímum. En til langrar framtíðar: Kýlum á það.