152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:45]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, Þórarni Inga Péturssyni, fyrir þessa umræðu um fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar og sömuleiðis hæstv. forsætisráðherra fyrir svör hennar áðan.

Það er orðin mjög svo áþreifanleg breyting á allri umræðu um fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar nú síðustu vikur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, stríð í ríki sem hefur lengi verið kallað matarkista Evrópu. Það þarf í raun og veru ekki táknfræðing til að skilja merkingu úkraínska fánans þar sem blár himinn liggur yfir gulum ökrum.

Samkvæmt skýrslu um fæðuöryggi á Íslandi, sem kom út 11. febrúar 2021, er talað um fjórar stoðir í fæðuöryggi okkar Íslendinga. Sú fyrsta er að auðlindir til framleiðslu séu til staðar, svo sem fiskstofnar og land til ræktunar. Það er bara mjög mikilvægt að við áttum okkur á að undir þessum lið erum við með fiskstofnana okkar sem eru sterkir og kannski er það sem helst ógnar okkur þar að það er mikilvægt að við tryggjum nýtingu þeirra ræktarjarða sem fyrir eru.

Annar liður er að þekking á framleiðslu og tæki til framleiðslu séu til staðar. Þar koma landbúnaðarháskólarnir okkar sterkir inn og tryggja okkur að þekking glatist ekki og að henni sé viðhaldið og hún efld á hverjum tíma.

Það er hins vegar þriðji liðurinn, frú forseti, sem menn hafa mestar áhyggjur af sem er að aðgengi að aðföngum sé tryggt fyrir framleiðslu sem mætir þörfum þjóðarinnar, svo sem að olíu, áburði og fóðri. Þar þarf að bregðast verulega við þar sem ljóst er að mikið af þessum aðföngum er nú strax af skornum skammti, svo sem áburður og grunnefni til áburðar. Einnig hafa menn áhyggjur af kjarnfóðri og korni (Forseti hringir.) og þeim hráefnum sem nauðsynleg eru í íslenskum landbúnaði. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Það þarf að tryggja framleiðsluvilja íslenskra bænda (Forseti hringir.) og bæta rekstrargrundvöll og rekstrarumgjörð íslensks landbúnaðar til framtíðar.