152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[16:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan er mikilvægt að við horfum á fæðuöryggi frá breiðari grunni, bæði hvernig við tökumst á við það þegar verðlag er að hækka og þetta verður dýrt og líka þegar aðgangur að ýmsum vörum takmarkast. Árið 2008 var Ísland næstum gjaldþrota. Reyndar má deila um það hvort við vorum ekki bara gjaldþrota. Nokkrum dögum áður en fræg sjónvarpsræða var haldin voru gerð plön um það hvernig mætti fara í vöruskipti á fiski í skiptum fyrir lyf, olíu og matvæli. Já, þetta getur gerst á Íslandi. Það er vonandi að sú svarta sviðsmynd verði ekki raunin aftur en það er mikilvægt að við byggjum upp viðbragðsáætlanir og mótvægisaðgerðir til að tryggja að við sem samfélag getum tekist á við ástand sem skapast, hvort sem það er af völdum náttúrunnar eða af mannanna völdum. Mikilvægt er að sú umræða, þær viðbragðsáætlanir og mótvægisaðgerðir séu gerðar núna en ekki korter í kaos.