152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[17:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að heyra tóninn í hæstv. forsætisráðherra en munu þau skilaboð sem hæstv. ráðherra flytur okkur hér skila sér í raunverulegum aðgerðum? Það er svo sannarlega þörf á þeim aðgerðum, meira en nokkru sinni áður. Ég er ekki viss um að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir umfangi vandans sem við er að eiga. Ég hvet fólk til að lesa grein Ernu Bjarnadóttur á Vísi í dag þar sem hún fer yfir raunveruleg áhrif þess sem er að gerast. Þetta kallar á raunverulegar aðgerðir.

En hver hefur raunin verið? Það er verið að þrengja að íslenskum landbúnaði úr mörgum áttum samtímis; með því að leggja nýjar álögur á greinina, með því að láta hana keppa við erlendan landbúnað á skakkan hátt, með því að samþykkja óhagfellda tollasamninga og þar fram eftir götunum, í stað þess að viðurkenna það einfaldlega að íslensk matvælaframleiðsla sé gríðarlega mikilvæg fyrir okkar þjóð og það sé þess virði að fjárfesta í henni og liðka fyrir. Það veitir ekki af því að liðka fyrir eins og regluverkið er orðið gagnvart landbúnaði núorðið.

Við sjáum líka að í stað þess að auka matvælaframleiðslu er gert ráð fyrir samdrætti. Ég hef oft bent á það að eina atvinnugreinin sem ríkið fjármagnar að einhverju leyti, þar sem gert var ráð fyrir samdrætti miðað við fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar, var landbúnaður. Alls staðar annars staðar var gert ráð fyrir auknum framlögum. Aðeins í landbúnaði var gert ráð fyrir samdrætti. Þetta birtist líka í því að verið er að moka ofan í skurði um allt land og eyðileggja landbúnaðarland í stað þess að auka framleiðslu.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnina alla til að kynna sér tillögur Miðflokksins, um stórsókn í matvælaframleiðslu og vinnslu á Íslandi, því að þar er lausnirnar að finna, hvernig hægt er að gera þetta, hvernig hægt er að láta verkin tala.