152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

skoðun ökutækja og hagsmunir bifreiðaeigenda á landsbyggðinni.

228. mál
[17:36]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Prófun á aksturshæfni ökutækja er ætlað að tryggja að ástand ökutækja sé öruggt og viðunandi og einnig að teknu tilliti til umhverfisverndar. Bilanir og aðrir annmarkar sem finnast í tæka tíð gefa færi á að koma í veg fyrir slys. Reglubundnar skoðanir á ökutækjum eru því mikilvægar fyrir umferðaröryggi. Varðandi það síðan hvort nægilega sé gætt að hagsmunum bifreiðaeigenda á landsbyggðinni að því er varðar akstursbann í stað endurskoðunar þá eru annmarkar sem í ljós koma við skoðun ökutækja flokkaðir í skoðunarhandbók Samgöngustofu í samræmi við það sem samevrópskar reglur kveða á um. Annmarkar eru þar flokkaðir í minni háttar annmarka, meiri háttar annmarka og alvarlega eða hættulega annmarka. Aðeins þeir annmarkar sem taldir eru alvarlegir eða hættulegir leiða síðan til samgöngubanns. Samgöngustofa vinnur nú að breytingum á þessari skoðunarhandbók í því skyni að tryggja enn betur samræmi við evrópskar reglur um skoðun ökutækja. Stofnunin mun við þá vinnu leitast við að tryggja að ekki sé gengið lengra en alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins gera kröfu um en þó er ljóst að skoðunarhandbókin mun að einhverju leyti fela í sér strangari kröfur en gerðar hafa verið til þessa. Samgöngustofa er til að mynda meðvituð um það að vilji minn stendur til þess að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er að teknu tilliti til umferðaröryggis.

Samkvæmt gildandi reglum er heimilt að veita undanþágu frá skoðunarskyldu ökutækja í Flatey á Breiðafirði, í Grímsey og í Hrísey með því skilyrði að þau séu ekki flutt frá viðkomandi eyju. Reglugerðin kveður einnig á um að eigandi ökutækis sem býr fjær næstu skoðunarstofu en 80 km geti óskað eftir tveggja mánaða viðbótarfresti, hafi hann ekki átt þess kost að færa ökutæki til skoðunar innan tiltekins frests. Þá er til næstu áramóta heimilt að veita 30 daga frest til viðbótar vegna endurskoðunar að því tilskildu að áður veittur frestur sé ekki útrunninn. Skilyrði fyrir slíkum fresti er að ekki sé unnt að útvega varahluti til viðgerða á ökutæki eða fá tíma fyrir það á verkstæði til viðgerðar til að bæta úr athugasemd eða athugasemdum sem leiddu til endurskoðunar ökutækisins. Til viðbótar við þetta hef ég heimilað að ökutæki séu færð til skoðunar allt að sex mánuðum fyrir lögbundinn skoðunarmánuð. Þá er vanrækslugjald ekki lagt á fyrr en að liðnum tveimur mánuðum frá þeim mánuði er færa átti ökutæki til skoðunar. Með framangreindu er að verulegu leyti komið til móts við eigendur ökutækja sem búa við aðstæður þar sem örðugt getur reynst að færa þau til reglubundinnar skoðunar.

Varðandi það hvort þjónustuskylda skoðunaraðila sé nægilega rík, þá vil ég segja að reglubundin skoðun ökutækja er þjónusta sem veitt er á markaðslegum forsendum. Eftirlit með starfsemi skoðunarstofa er fyrst og fremst bundið við gæði skoðana og þær séu framkvæmdar í samræmi við skoðunarhandbók og reglur um skoðun ökutækja. Með þeim viðbótarfrestum sem ég minntist á áðan er síðan leitast eftir því eða á að reyna að tryggja að þeir sem búa fjarri skoðunarstofum með virka starfsemi verði fyrir sem minnstu óhagræði án þess þó að umferðaröryggi sé ógnað. Á Íslandi eru starfandi fjögur fyrirtæki sem bjóða upp á skoðanir ökutækja, skoðunarstofur sinna skoðunum og hafa aðstöðu víða á landsbyggðinni. Auk þess hafa þær aðgang að aðstöðu til skoðunar ökutækja á bifreiðaverkstæðum á nokkrum stöðum. Tvö fyrirtækjanna notast auk þess við færanlegar skoðunarstöðvar sem eru búnar til að fara á þá staði þar sem ekki eru fastar skoðunarstofur. Þá geta verkstæði hlotið úttekt sem endurskoðunarverkstæði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en slík verkstæði geta veitt fullnaðarskoðun á ökutæki sem hafa fengið frest við reglubundna skoðun. Ef skylda ætti skoðunarstofur til að bjóða upp á þjónustu á tilteknum svæðum er hætt við því að því myndi fylgja verulega aukinn kostnaður sem myndi skila sér út í verðlag og þannig leiða til dýrari þjónustu fyrir notendur. Slíkar nýjar skyldur þyrfti því að vera vel afmarkaðar og skýrar í framkvæmd til að draga úr kostnaðaráhrifum þeirra.

Svo ætla ég í lokin aðeins að fá tækifæri til að fara yfir hvar skoðunarstofur eru á Íslandi til að menn átti sig á þéttleikanum í því.