152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Á milli Dalvíkur og Grímseyjar siglir ferjan Sæfari samkvæmt áætlun allt árið. Siglingin tekur upp undir þrjár klukkustundir hvora leið og ferjan tekur yfir 100 farþega. Yfir vetrartímann siglir ferjan þrisvar til fjórum sinnum í viku en á sumrin svona fimm sinnum. Margir aðilar hafa vakið athygli mína á málefnum ferjunnar en aðalmálið er að endurnýja ferjuna til Grímseyjar. Skipið er orðið gamalt og mjög lélegt og löngu kominn tími á endurnýjun. Nú er horft til þess að þörf sé á því að fara í kostnaðarsama endurnýjun og viðgerðir á vél. Því er eðlilegt og nauðsynlegt að eiga hér samtal um hvernig hæstv. innviðaráðherra sér ferjumál fyrir sér til framtíðar og hvort hann sjái fyrir sér einhverja lausn.

Fyrri fyrirspurn mín í dag er hvort hæstv. innviðaráðherra hyggist beita sér fyrir því að Grímseyjarferjan verði endurnýjuð og ef svo er, hvernig. Ef við tölum aðeins um Grímsey og íbúa eyjunnar er búseta í Grímsey ekki að fara að leggjast af. Mikil er þrautseigjan í íbúum en þar er miklu magni af fiski landað sem er auðvitað lífæð fólks í eyjunni. Íbúar eru um 20–60 árið um kring og hefur Grímsey ekki farið á mis við fjölgun ferðamanna til landsins en til eyjunnar vilja ferðamenn komast allt árið um kring. Aðstaðan um borð fyrir farþega og áhöfn er óboðleg. Eitt salerni er um borð sem getur teppst, klóaklykt í skipinu sem magnast í slæmu veðri og ryð sem hefur nánast eyðilagt landfestar. Það er nauðsynlegt að sýna íbúum þá virðingu að hafa almennilegt skip.

Að síðari fyrirspurn minni: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ferjur á skilgreindum ferjuleiðum verði endurnýjaðar í ljósi markmiða ríkisstjórnarinnar um orkuskipti? Spurningin krefst ekki frekari skýringa. Ferjumálin í landinu eru almennt í ólagi nema kannski til Vestmannaeyja. Baldur er lélegt skip sem hefur ítrekað bilað og síðast þannig að næstum hlaust hræðileg slys af. Skipin Sæfari sem fer til Grímseyjar og Sævar sem fer til Hríseyjar eru bæði orðin mjög léleg og engan veginn boðleg íbúum og ferðamönnum í dag ásamt því að notkun þeirra verður eftir nokkur ár andstæð markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.