152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[18:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar, þær eru tímabærar. Það hefur margt gerst á umliðnum mánuðum og árum í þessum efnum. Fyrst var spurt: Hvernig miðar innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun og hvenær má ætla að öll afgreiðsla verði orðin rafræn? Innleiðingu rafrænna umsókna um ríkisborgararétt er lokið, þ.e. fyrstu útgáfu. Næsta skref í því er að fylgja því eftir með útgáfu tvö á grundvelli athugasemda notenda og starfsfólks. Tengimöguleikar eru til staðar fyrir næstu umsóknir. Innleiðing rafrænna umsókna um endurnýjun á dvalarleyfi er að hefjast og stofnunin gerir ráð fyrir að flestar endurnýjanir verði orðnar rafrænar í lok árs. Þá verða um 50% af öllum umsóknum orðnar rafrænar og áætlað að árið 2023 verði allar umsóknir orðnar rafrænar.

Hvaða þjónusta verður fyrst rafræn? Rafræn umsókn um ríkisborgararétt fór í loftið 19. janúar sl. Nú þegar hafa umsóknir borist.

Verður afgreiðsla stofnunarinnar samhliða stafræn og hvenær má ætla að öll afgreiðsla verði orðin stafræn? Ekki er unnt að bjóða upp á stafræna afgreiðslu fyrr en nýtt upplýsingakerfi hefur verið innleitt sem styður við og ber stafræna vegferð. Innleiðing á því er áætluð á árunum 2022–2024.

Hver er áætlaður kostnaður við að innleiða rafræna og stafræna stjórnsýslu á þessu sviði? Á fjárlögum 2022 og 2023 eru 35 milljónir tilgreindar hvort árið og er reiknað með því að þær 70 milljónir dugi. Í mati ráðgjafa og mögulegra samstarfsaðila hafa komið fram tölur sem eru í kringum þá tölu en reyndar líka hærri og lægri tölur. Verið er að undirbúa útboð og kynningargögn sem leiða fram mögulega samstarfsaðila í þessu sambandi.

Hvaða kostir gætu fylgt slíkri innleiðingu, annars vegar fyrir stjórnvöld og hins vegar fyrir notendur þjónustunnar? Kostir notandans eru ótvíræðir og fjölmargir. Rafræn og stafræn stjórnsýsla verður fljótvirkari, gagnvirk, tímasparandi og dregur úr kostnaði. Notandi stýrir afgreiðsluferli umsóknar sinnar og hefur óheft aðgengi að þeim upplýsingum sem hann sjálfur setur inn. Hann getur sótt eða eytt upplýsingum þegar það á við og fylgst með því hvar í ferli umsókn hans er stödd. Notandinn yrði leiddur áfram og tryggt að rétt gögn og greiðsla berist í samræmi við tegund umsóknar. Þegar fullri sjálfvirkni er náð afgreiðir kerfið notandann í rauntíma þegar sótt er um endurnýjanir eða ríkisborgararétt. Enn sem komið eru innskráningar í kerfið háðar island.is sem ekki er komið með aðgengi fyrir fólk sem er án kennitölu og unnið er að úrlausnum í þeim efnum.

Fleiri kostir eru til staðar. Það má nefna aukið þjónustustig. Þetta dregur úr kostnaði og endursendingum skjala. Umsóknarferlið, eins og ég sagði, leiðir notandann áfram og hann stýrir ferlinu. Gagnvirk samskipti verða komin, spjallmenn og netspjall á opnunartíma. Afgreiðslutími styttist verulega og sjálfsafgreiðsla er í rauntíma á tilteknum umsóknum. Tíma- og peningasparnaður er augljós. Það má nefna ljósritun, innskönnun og póstsendingar. Öryggi gagna verður auk þess miklu meira. Kostirnir eru ótvíræðir og fjölmargir fyrir ríkið. Rafræn og stafræn stjórnsýsla eykur skilvirkni og er hagkvæmari. Gera má ráð fyrir að það auki ánægju viðskiptavina. Ábyrgð á umsókn og fylgigögnum er hjá notanda sem sjaldnast þarf að fá frekari leiðbeiningar. Greiðslur fyrir umsóknir berast beint inn í greiðslukerfið og eru tengdar kennitölu umsækjanda. Starfsfólk þarf ekki lengur að skrá inn umsóknir, kalla eftir gögnum og endursenda gögn. Betri nýting verður á starfsfólki við afgreiðslu umsókna í stað mikils tíma við móttöku og skráningu. Fjölgun umsókna verður viðráðanleg, þ.e. hún kallar ekki endilega á viðbótarstarfsfólk. Kerfið og vinnuferillinn er vistvænn, fullnægir þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og er talið sjálfbært. Fleiri kostir eru til staðar sem styðja við þetta og kannski of langt mál að telja það allt upp hér.