152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun.

255. mál
[18:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Við lifum á tímum stafrænnar umbyltingar og þegar kemur að því að búa til stafrænt viðmót á þjónustu ríkisins þá erum við Íslendingar svo sannarlega framarlega í þeim efnum. Það er hins vegar mikill misskilningur að hið stafræna viðmót bæti þá þjónustu sem veitt er, flýti málsmeðferð eða auki skilvirkni. Það eitt að breyta úr því að fá umsóknir á pappír yfir á rafrænt form er nokkuð sem svo sannarlega mun spara einhver tré en meðhöndlun umsóknanna sjálfra mun í flestum tilvikum taka sama tíma og áður ef ekkert í innri vinnslu stofnunarinnar breytist. Það er ekki fyrr en við förum að nýta tæknina við sjálfa höndlun umsóknanna innan stofnunarinnar sem við förum að sjá stafrænu umbyltinguna skila sér í formi skilvirkni í þjónustu. Umsóknir um ríkisborgararétt til Alþingis er gott dæmi um það. Hægt væri að gera hlutverk Útlendingastofnunar í því ferli algerlega sjálfvirkt með því að láta kerfið sjálft óska eftir þeim gögnum sem vantar (Forseti hringir.) og skrifa svo sjálft umsögn sem segir hvaða skilyrði eru uppfyllt og hver ekki.