152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hinn 29. janúar síðastliðinn sendi Fangavarðafélags Íslands ákall til dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ásamt fangelsismálastjóra og formanni stéttarfélagsins Sameykis. Tilefnið var árás á fangaverði á Hólmsheiði í sama mánuði. Í bréfinu lýsir stjórn fangavarðafélagsins þungum áhyggjum af öryggismálum í fangelsum landsins. Langvarandi undirmönnun dragi úr viðbragðsflýti og skerði öryggi bæði fangavarða og fanga. Sérstaklega er bent á að fangar sem glími við alvarleg geðræn veikindi fái ekki þá þjónustu sem þeir þurfa vegna ónógrar mönnunar. Það geti dregið úr öryggi í vinnuumhverfi fangavarða eins og dæmin því miður sanna.

Í lögum um fullnustu refsinga er skýrt kveðið á um að þær fari fram með öruggum og skilvirkum hætti. Fangavarðafélagið bendir á að með því segi lögin að tryggja þurfi öruggt vinnuumhverfi innan fangelsanna og allur aðbúnaður í þeim verði að styðja markmið laganna. Í ákalli fangavarðafélagsins segir m.a., með leyfi forseta:

„Of fáir fangaverðir eru á vöktum og með því er öryggi starfsmanna og fangelsanna stefnt í hættu. Má meðal annars nefna að á Hólmsheiði eru 3 starfsmenn á næturvakt með allt að 50 fanga …“

Einnig má nefna að á Kvíabryggju er einungis einn fangavörður vörður á næturvakt með 22 fanga.

Afstaða, félag fanga á Íslandi, hefur einnig lýst áhyggjum sínum af öryggi og aðbúnaði í fangelsunum á Íslandi og sendi dómsmálaráðuneytinu og Fangelsismálastofnun einnig erindi í janúar. Þar er bent á sömu atriði og komu fram í erindi fangavarðafélagsins.

Mig langar af þessu tilefni, frú forseti, að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir því hver viðbrögð ráðuneytisins hafi verið við ákalli fangavarðafélagsins og erindi Afstöðu. Hvernig hefur hæstv. dómsmálaráðherra brugðist við? Ég fæ að skjóta inn spurningu sem varðar efnið einnig: Hvernig er umgjörð mönnunar í fangelsum á Íslandi? Gilda um hana reglur? Eru þær festar í reglugerðum eða með öðrum hætti í ráðuneytinu?