152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa fyrirspurn. Það er allt of sjaldan sem rætt er um fangelsismál og hagsmuni fanga og það er ekki vinsælt umræðuefni. Ég vildi tala hér um biðlista. Eins absúrd og það nú er hefur þessari ríkisstjórn tekist að skapa biðlista eftir úrræðum sem enginn vill þiggja. Það er auðvitað mannréttindamál hversu langur biðtíminn er eftir afplánun. Hann var í fyrra að jafnaði um sjö mánuðir og í einhverjum tilvikum lengri. Þetta gerir það að verkum að menn sem hafa hlotið dóma eru í einhverjum tilvikum komnir á allt annan og betri stað loksins þegar þeir eru kallaðir til afplánunar. Þetta efni helst ágætlega í hendur við það sem ég er að fara að ræða á eftir, málsmeðferðartíma. Ég myndi vilja biðla til hæstv. dómsmálaráðherra að gera allt sem hann getur til að tryggja að þeir menn sem bíða eftir afplánun fái að afplána dóminn sem allra fyrst. Það er réttindamál að geta gert það.