152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar til að taka undir með þeim sem hér hafa gert stuttar athugasemdir og þakka fyrir þessa umræðu. Það er allt of sjaldan sem þetta mikilvæga málefni er rætt hér í þingsal. Rétt eins og komið hefur verið inn á hér, m.a. af hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, þá varðar það grundvallarmannréttindi, bæði þeirra sem hafa verið frelsissviptir og þeirra sem eiga að gæta öryggis þeirra.

Ég hegg eftir því að ráðherra talar um þau verk sem hann hyggst leggja á borðið í þessari vinnu. Ég veit að ráðherra hefur áhuga á þessum málaflokki og trúi því að hann muni láta til sín taka þar. Það sem ég velti hins vegar fyrir mér í þessu kemur svolítið inn á það sem málshefjandi, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, talaði um. Hún spurði hvort hægt væri að setja þetta, ef ég skildi hana rétt, í fastari skorður, hvort hægt væri að setja þetta í reglugerðir eða annað þannig að líðan og öryggi þessa hóps (Forseti hringir.) væri ekki háð tilviljanakenndri forgangsröðun stjórnvalda hverju sinni, (Forseti hringir.) hvort hægt væri að festa þetta dálítið niður. Mér þætti vænt um að heyra hvort ráðherra hefði í huga að setja málið í slíkar fastar skorður.