152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:21]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota tækifærið til að minnast á aðstöðuleysi fyrir starfsfólk á Kvíabryggju. Ég heimsótti Kvíabryggju fyrir stuttu og ræddi við starfsfólk og vistmenn. Þetta er einstakur staður í réttarvörslukerfinu en aðstaðan er engin fyrir starfsfólk. Þetta snýst ekki bara um að það sé einn starfsmaður á vakt út frá öryggismálum. Nei, það var ekki undan því kvartað, heldur hafa komið upp atvik þar sem starfsfólk hefur veikst alvarlega á vakt og enginn verið á svæðinu til aðstoðar. Þess utan er aðstaða starfsmanna um 7 m² skrifstofa. Það er engin persónuleg aðstaða, fundarherbergi eða matsvæði fyrir fólk sem þar vinnur. Kvíabryggja hefur fengið athugasemdir sem varða aðstöðu starfsfólks og vistmanna frá Vinnueftirliti ríkisins, Brunamálastofnun ríkisins og öryggisfulltrúa Fangelsismálastofnunar. Þetta er ekki bara öryggismál sem þarf að ræða, heldur vinnuumhverfi fólks á Kvíabryggju sem er mjög mikilvægt úrræði í réttarvörslukerfinu.