152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Mig langar til að hvetja hæstv. ráðherra til að tala beint við fangaverðina, tala beint við fulltrúa Fangavarðafélags Íslands. Það er lofsvert að hann sé þegar búinn að ræða við fulltrúa Afstöðu, en það þarf að ræða beint við fólkið á gólfinu sem sinnir þessum mikilvægu störfum allan ársins hring. Við erum að ræða um grunnstoð í réttarvörslukerfinu sem er auðvitað líka velferðarkerfi af því að það á að sjá til þess að betrun geti farið fram og mannréttindi fanga séu virt. Þær úrbætur verða best gerðar í samstarfi við fangaverðina sjálfa, fólkið sem vinnur í fangelsunum.

Ég fékk ekki svar við spurningu minni um lagalega umgjörð og reglugerð um lágmarksmönnun í fangelsum og fæ að endurtaka hana hér. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og hér hefur verið bent á í umræðunni, að það komi skýrt fram og hafi lagastoð hvernig eigi að manna fangelsin, deildirnar og fangelsin með tilliti til þess hvort um sé að ræða opin fangelsi eða öryggisfangelsi, og að það haldi hvað sem öllu öðru líður. Hér eru á ferðinni mjög mikilvæg opinber störf og mér hnykkti aðeins við þegar hæstv. ráðherra nefndi breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sem gætu þá fjölgað starfsmönnum og vil nota þetta tækifæri til að spyrja ráðherra nánar út í það. Hvað þýðir það? Á að fara að útvista eða einkavæða einhvern hluta fangelsismála eða reksturs fangelsa hér á landi? Það yrði grundvallarbreyting sem þarf að ræða á hinu háa Alþingi.

Að síðustu: Við erum ekki bara að tala um öryggi út frá valdbeitingu heldur öryggi á vinnustað ef eitthvað kemur upp á, slys eða annað sem getur raskað öryggi bæði starfsfólks og fanga.