152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

ákall Fangavarðafélags Íslands.

293. mál
[19:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hv. fyrirspyrjandi spyr um laga- og reglugerðarumhverfið. Þegar ég kem inn á það að ég sé með þetta allt í skoðun, þetta rekstrarumhverfi og rekstrarfyrirkomulag, munum við auðvitað þurfa að taka til skoðunar allt sem fylgir því laga- og regluverki. Þegar ég er að tala um breytingar á rekstrarumhverfi er ég ekki endilega að tala um einkavæðingu í rekstri fangelsa en ég er að skoða hvernig við getum mögulega einfaldað þann rekstur. Þá er ég kannski ekki síst að horfa til þessara opnu fangelsa þar sem við erum með mjög óhagkvæmar einingar að mínu mati — ég er að láta skoða það sérstaklega — að reka þetta á tveimur stöðum. Ég tel augljóst að það geti verið mjög jákvætt að sameina þá starfsemi á einhverjum tíma og tryggja betri mönnun.

Hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir kom inn á biðlista fanga. Það er bara hægt að segja að þar hafi hún hitt naglann á höfuðið. Þetta er mannréttindamál og þó að undanfarið hafi gengið betur að vinna niður listann, og þó að úrræðum hafi verið fjölgað mjög mikið, þ.e. með samfélagslegri þjónustu sem fangar geta veitt til að afplána sinn dóm, með ökklaböndum o.fl., hafa dómar þyngst á sama tíma og þetta hefur verið mjög erfitt við að glíma. Ég tek algjörlega undir það að þetta er mannréttindamál og ég er búinn að sjá mörg sorgleg dæmi, á þeim tíma sem ég hef verið í þessu embætti, um það hve þetta getur komið sér illa, og þetta er bara ómannúðlegt. Vanfjármögnuð starfsemi og undirmönnuð er það sem ég er að skoða og ekki þarf að hvetja mig til að eiga fund með fulltrúum Fangavarðafélagsins. Það er augljóst að ég hef setið á mjög mörgum fundum með þeim undanfarið og þeir eru klárlega á dagskrá.