152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum.

306. mál
[19:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir svörin. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg umræða og við þurfum að fylgjast vel með framgangi þessara mála. Það er algerlega óásættanlegt að það verði til refsilækkunar hversu langan tíma hefur tekið að rannsaka mál. Það er algjörlega óásættanlegt og við eigum alls ekki að sætta okkur við það. Mig langar að benda á það að á 149. þingi lagði ég fram fyrirspurn um það hver áhrif aukinna fjárveitinga til löggæslunnar voru á afgreiðslu kynferðisafbrotamála. Ég fékk svar, sem er á þskj. 912, 490. mál, sem sýndi ofboðslega vel hversu vel þessir auknu fjármunir skiluðu sér í þessar rannsóknir og hvað árangurinn var mikill. Það er líka mjög vel greint í þessu svari hvernig lögreglan á höfuðborgarsvæðinu breytti verklagi sínu og bara hvað breytt verklag skiptir miklu máli. Og ég sé það á þessu að það er full ástæða fyrir mig (Forseti hringir.) til að endurtaka þessa fyrirspurn og sjá árangurinn því alla vega á þessum tímapunkti þá náðist mikill árangur (Forseti hringir.) en við megum gera miklu betur.