152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

málsmeðferðartími í kynferðisafbrotamálum.

306. mál
[19:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og ánægjulegt að heyra að hann er allur af vilja gerður. Ég vil hins vegar kannski aðeins vara við því að fara enn eina ferðina af stað með það að greina stöðu. Við vitum hver staðan er. Staðan hefur verið hin sama árum saman. Það er vissulega rétt að það leita fleiri til lögreglu núna [Símhringing í þingsal.] en verið hefur en það breytir ekki þeim stóra punkti að svona hefur staðan verið undanfarin ár. Og af því að hæstv. ráðherra nefndi að það ætti að skoða stöðuna heildstætt þá er það þannig, eins og við ræddum hérna fyrr í kvöld, að það eru biðlistar líka í fangelsismálunum. Menn bíða eftir afplánun. Það er skortur á meðferðarúrræðum. Síðasti dómsmálaráðherra í ríkisstjórn, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fór þá leið að ætla að innleiða náðanir vegna þess að dómar voru fyrnast. Fyrndir dómar þýða það að menn sem hafa verið dæmdir til að sæta fangelsisrefsingu gera það ekki. Það eru ótrúlega óheilbrigð skilaboð til samfélagsins alls að staðan sé þessi og hún hefur verið svona árum saman. Það bjarta í þessu er að það er ekkert sérstaklega flókið að leysa vandann. Það þarf að standa með þessum stofnunum sem hafa þessi verkefni með höndum. Það þarf að standa með lögreglunni, ákæruvaldinu, dómstólunum og Fangelsismálastofnun. Ég get lofað hæstv. dómsmálaráðherra því að ef hann gerir það þá kemst hann ansi langt með það að leysa þennan vanda.