152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

endurheimt votlendis.

360. mál
[20:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ná því að helminga losun fyrir 2030 er tvennt sem skiptir mestu máli: Það er endurheimt votlendis og röskun vistkerfa. Og það þarf líka að vera skýrt hvar ábyrgðin í því liggur. Liggur hún hjá hæstv. ráðherra hér eða hjá landbúnaðarráðherra? Á að fara í það að endurheimta votlendi? Af þeim 18 milljónum tonna sem við losum þá losar illa farið land 9,3 milljónir. Þá verður líka að segja hvernig á að aðstoða landeigendur. Á að gera það yfirleitt? Á að nýta kolefnisskattinn sem er talað um í stjórnarsáttmálanum? Á hann líka að fara í framræst votlendi? Síðan er hitt, að það þarf að stöðva gróðureyðingu og græða upp illa farið land sem tengist m.a. ofbeit á illa förnu landi. Þar er losunin um 4 milljónir tonna af þeim 18 sem við losum. Ég vil benda á að það er hvergi talað um beitarstjórnun í stjórnarsáttmálanum. Þetta tvennt: Ef við ætlum að fara að tala um átak í loftslagsmálum á Íslandi þá verðum við annars vegar að endurheimta votlendi og huga að röskun vistkerfa og síðan að stöðva gróðureyðingu. Það er ekki hægt að tala um neitt átak í loftslagsmálum nema farið verði í þessa hluti.