152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

endurheimt votlendis.

360. mál
[20:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. fyrirspyrjanda sem og þeim hv. þingmönnum sem komu hér með athugasemdir. Mér finnst rétt að gera gefa lokaorðum hv. þm. Líneikar Sævarsdóttur gaum, sem mér fundust vera kjarni máls; að við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur þó svo að það sé gert með góðum hug. Mín niðurstaða, eftir að vera búinn að vera þennan stutta tíma í embætti, er að við eigum að leggja okkur fram við að kanna hluti mjög vel áður en farið er í þá. Það ætti í rauninni að segja sig sjálft að þegar við erum að fara í þessar miklu breytingar sem við höfum farið í þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum, þar erum við með mjög metnaðarfull markmið og ætlum að gera hlutina mjög hratt, þá verðum við að byggja það á bestu mögulegri þekkingu. Og eðlilega höfum við ekki verið með augun á þessu á undanförnum áratug. En það þýðir bara að við megum aldrei gleyma því þegar við gerum áætlanir að þær verða að byggja á bestu mögulegu upplýsingum og svo sannarlega eru vísindin grunnurinn að því.

Hv. þingmaður vísaði líka sérstaklega til þess, og það og kom fram hjá öðrum hv. þingmanni, Gísla Rafni Ólafssyni, að það á auðvitað að tala við og eiga í samskiptum við þá sem best þekkja landið, hvort sem það eru bændur eða fólk sem þekkir það af öðrum ástæðum. En aðalatriðið er þetta: Þetta er auðvitað mikil áskorun og stórt verkefni og þar ætlum við að ná árangri, en við skulum ekki gleyma því að við ætlum að gera það með því að vanda okkur.