152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

afglæpavæðing neysluskammta.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég bara get ekki elt ólar við það þótt Twitter-samfélagið fari á hliðina við að oftúlka ummæli í fjölmiðlum eða hv. þingmaður dragi af því almennar ályktanir um stjórnmálalega skoðun mína á þessu máli. Ég bara ætla ekki að þreyta sjálfan mig eða aðra á því að elta ólar við slíkt. Það sem ég er einfaldlega að benda á er að ég hef hvergi í viðtölum sagt að sú leið að reyna frekar að beita heilbrigðiskerfinu til að koma til móts við þennan vanda sé óskynsamleg eða að ég leggist gegn henni. En þetta liggur auðvitað á endanum allt í útfærslunni. Þegar við ræðum um fíkniefni í íslensku samfélagi þá finnst mér það bara vera bráðnauðsynlegur hluti umræðunnar að ræða það hversu alvarleg vandamál skapast í samfélaginu vegna þeirra. Við eigum að ræða í því samhengi um miðlara fíkniefna, innflutning fíkniefna, framleiðslu fíkniefna og hvað við ætlum að gera til að berjast gegn öllu þessu (Forseti hringir.) til að verja ungt fólk, til að verja börn og unglinga, fjölskyldur (Forseti hringir.) og aðra þá sem eru að verða fyrir hrikalegum skaða vegna fíkniefna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)