152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Mér þótti ég þó ekki fá svar við verðbilinu í frumútboðinu en vænti þess að það sé kannski eitthvað sem hæstv. ráðherra getur komið fram með. Mín seinni spurning gengur út á það að hæstv. ráðherra sagði að útboðið hefði gengið vel á alla mælikvarða og ég spyr því hæstv. ráðherra: Hverjir voru þessir mælikvarðar og hvernig komu þeir út? Ég vænti þess að einn af mælikvörðunum um að útboðið gengi vel hafi verið að kostnaður við söluferlið væri viðunandi. Það hefur verið mikil gagnrýni um að kostnaðurinn hafi verið mjög hár síðast og mig langar því að spyrja hver kostnaðurinn var við söluferlið að þessu sinni.