152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar þetta útboð var undirbúið þá hafði komið fram hjá Bankasýslunni að gera mætti ráð fyrir því að það yrði einhver afsláttur af síðasta skráða söluverði. Það tíðkaðist. Ég ætla ekki að neita því að það er eitt af því sem olli mér ákveðnum áhyggjum við framkvæmd útboðsins að þessi afsláttur yrði í efri mörkum þess bils sem nefnt hafði verið eða nálægt því sem tíðkast víða annars staðar. En það var nokkuð langt frá því. Þessi markmið sem við erum að leita að eru m.a. lögbundin, eins og er t.d. að finna í 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins. Áhersla skal lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni og með því er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs. Mér finnst að þessi markmið hafi náðst mjög vel. Ég fæ ekki betur séð en að okkur hafi tekist að draga að alveg gríðarlegan áhuga í bæði skiptin og niðurstaðan er, ef við bara skoðum hluthafaskrána, að við erum með langtímafjárfesta og dreifða eignaraðild.