152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:04]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar útskýringar en ætla að fá að ítreka spurningu mína um hvort þessir aðilar, þessi nöfn, muni líka birtast á þeim lista sem við fáum, þ.e. að við fáum að sjá alla þá aðila sem var boðið að kaupa í þessu ferli. Það er ekki gott í ferli sem á að vera gagnsætt og yfir alla gagnrýni hafið að það berist slúður, gróusögur, upplýsingar um að sumir hafi fengið símtal frá sínum verðbréfamiðlara og aðrir ekki. Hugmyndin á bak við tilboðsverð af þessu tagi þar sem verið er að grípa inn í markaðsverð — í almenna útboðinu á sínum tíma var bankinn ekki kominn á markað — er að það séu góð og gild rök fyrir slíku. Ég get ekki séð, þegar var svona mikil umframeftirspurn hjá stórum aðilum sem vildu fá inn, að það hefði átt að hleypa svona litlum fjárfestum að. Fáum við að sjá þessi nöfn? Munu þau vera á þessum lista og hvenær kemur hann?