152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:28]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það veldur mér talsverðum vonbrigðum að það sé ekki almennilegt gagnsæi í þessu ferli. Mér hefur ekki þótt eðlilegt að þessi banki sé endilega að eilífu í eigu hins opinbera og hef sagt það opinberlega. Mér finnst hins vegar skipta máli hvernig þetta er gert og þess vegna eru þetta vonbrigði, af því að ef markmiðið með þessari sölu var t.d. að auka tiltrú fólks á bankakerfinu og samskipti þar á milli þá eru svona lítil atvik, sem er svolítið ýtt til hliðar, einmitt til þess fallin að grafa undan öllu ferlinu. Þess vegna veldur þetta mér gríðarlegum vonbrigðum. Ég myndi að sjálfsögðu vilja sjá, fyrst við erum komin á þessa vegferð, að selja bankann á þessum tímapunkti, að þessum fjármunum yrði varið í samfélagslega uppbyggingu. Ég hef sagt það víða og get sagt það hér að mér finnst eðlilegt að Landsbankanum sé haldið eftir en ekkert óeðlilegt við að Íslandsbanki sé seldur. Það er síðan hægt að rökræða um tíma og stað. En ef markmiðið núna var að auka traust á þessu ferli og halda að hundraðkallar til eða frá skipti engu máli þá er það bara rangur útgangspunktur. Það eru nákvæmlega svona hliðarafurðir sem skipta máli. Það er nákvæmlega þetta sem fær fólk til að hafa áhyggjur af því að verið sé að setja hluti undir borðið og einhverjir sem eru tengdari en aðrir komist að. Við megum ekki við þessu. Þetta er stórmál. Ég ætla bara að vona að hæstv. fjármálaráðherra setji pressu á það að þessar upplýsingar komi fram og við fáum að vita hvers vegna Bankasýslan samþykkti þessa aðila.