152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:48]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Flokkur fólksins hefur lagst alfarið gegn þeirri ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að fallast á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á eignarhlutum í Íslandsbanka. Að það sé ekki hlutverk ríkisins að eiga banka, eru ekki rök fyrir sölu heldur fullyrðing byggð á þeirri hugmyndafræði að allt sem geti verið einkarekið eigi að vera það. Öllum er frjálst að hafa slíka lífsskoðun, en þeir sem aðhyllast hana hafa aldrei fært rök fyrir því hvers vegna það sé endilega verra að ríkið eigi banka sem þjónar samfélaginu. Frekar en að selja hefði verið hægt að fara aðrar leiðir. Það hefði t.d. verið hægt að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og stofna óhagnaðardrifinn samfélagsbanka, banka sem stundar bankaviðskipti og hefur hagsmuni viðskiptavina í fyrirrúmi í stað hagnaðarkröfu fjárfesta. Á venjulegum viðskiptabanka og samfélagsbanka er mikill munur því að samfélagsbanki staðsetur sig með neytendum og miðar allar ákvarðanir við að þær séu þeim til hagsbóta. Og áður en meira er selt af bönkum þarf að skoða það alvarlega að nýta arð ríkisins af bönkunum til að gera heilt við þá sem fóru illa út úr hruninu án þess að eiga nokkra sök á því.

Já, bankahrunið 2008 er enn þá algjörlega óuppgert. Þó að Flokkur fólksins sé alfarið mótfallinn sölu bankanna er því miður ekki hægt að segja að eignarhald ríkisins á bönkunum hafi á nokkrum tímapunkti komið neytendum til góða. Þvert á móti hefur ríkið, ásamt lífeyrissjóðunum, beygt sig undir og samþykkt hagnaðarkröfur bankanna, sem hefur komið neytendum illa. Ríkið hefur þannig aldrei gert athugasemdir við þann methagnað sem bankarnir hafa haft á undanförnum árum því að þó að þeir hafi sýnt methagnað á síðasta ári var það í kjölfarið á mörgum vægast sagt gjöfulum árum. Það má þannig segja að bankarnir hafi hagnast mikið, mjög mikið, og svo enn þá meira á undanförnum árum. En þó að ríkið hafi ekki reynst vörn gagnvart hagnaðarkröfum fjárfesta þá var það þó til staðar og átti möguleika á að grípa inn í, en þann möguleika er ríkið að gefa frá sér. Bankarnir hafa gríðarlega víðtæk áhrif á líf okkar allra með beinum og óbeinum hætti. Þeir hafa t.d. öll völd yfir þeim lánakjörum sem okkur bjóðast í húsnæðislánum, sem eru stærsti útgjaldaliður flestra heimila, ef ekki allra. Ég óttast það mjög að þetta vald sé að stórum hluta komið í hendur fjárfesta, alveg sama hversu miklir fagfjárfestar þeir eru, því að ég held að fagmennska þeirrar snúist fyrst og fremst um að hámarka eigin hagnað.

Svo blasir líka við furðulegt mat á hæfum fagfjárfestum, eins og fyrstu fréttir um þá sem fengu að kaupa báru með sér, þegar það reyndust vera innherjar, þrír einstaklingar, sem voru reyndar háeffaðir í bak og fyrir. En hvað gerði þá svo faglega og hæfa fjárfesta að þeir væru teknir framar öðrum? Allir tengdust þessir menn — allt karlmenn — Íslandsbanka með einum eða öðrum hætti. Einn í gegnum mægðir, annar er háttsettur starfsmaður bankans og sá þriðji situr í stjórn hans. Þessir þrír aðilar keyptu samtals 97 milljóna hlut sem þeir borguðu 94 milljónir fyrir. Einn þeirra rekur ehf.-félag sem er með neikvæða eiginfjárstöðu upp á 135 milljónir. Hvað gerði hann að fagfjárfesti? Og annar varð gjaldþrota árið 2015 vegna 313 millj. kr. skuldar við — jú, hvern annan en Íslandsbanka? Ég ætla ekki einu sinni að ræða þá staðreynd að þrátt fyrir þetta sitji hann í stjórn bankans en vil gjarnan fá að vita hvers vegna einstaklingur með þessa sögu er gjaldgengur í lokað útboð fagfjárfesta. Hvernig fjármögnuðu þessir menn kaupin? Fengu þeir kannski lán í bankanum sjálfum fyrir þeim?

Skilyrði fyrir því að geta kallað sig fagfjárfesti eru eftirfarandi, skv. 54. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, með leyfi forseta:

„1. Hann hafi átt umtalsverð viðskipti á viðeigandi markaði næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi.

2. Verðgildi fjármálagerninga og innstæðna fjárfestis nemi samanlagt meira en jafnvirði 500.000 evra, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.

3. Fjárfestir gegni eða hafi gegnt, í a.m.k. eitt ár, stöðu í fjármálageiranum sem krefst þekkingar á fyrirhuguðum viðskiptum eða þjónustu.“

Fagfjárfestar þurfi að uppfylla a.m.k. tvö þessara skilyrða. Það er erfitt að ímynda sér að fjárfestir sem er með neikvæða eiginfjárstöðu uppfylli skilyrði 2, um að verðgildi fjármálagerninga og innstæðna fjárfestis nemi samanlagt meira en jafnvirði 500.000 evra, eða um 70 milljónum. Auk þess veltir maður fyrir sér hvort þessir menn hafi átt umtalsverð viðskipti 40 sinnum á einu ári. Það er ljóst að tveir þeirra hafa gegnt stöðu eða verið í stjórn Íslandsbanka í ár eða meira, en hins vegar er óvíst um þann þriðja.

Það er ástæða fyrir vantrausti þjóðarinnar, bæði gagnvart þessu söluferli og einnig því að bankarnir séu yfirleitt seldir. Minningarnar frá hruninu og aðdraganda þess eru þjóðinni í fersku minni þar sem alveg svakalega klárir menn, sem sumir voru titlaðir fagfjárfestar, rændu bankana að innan og létu svo þjóðina borga allt sukkið en hafa sjálfir alla tíð síðan lifað í vellystingum praktuglega á meðan a.m.k. 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín vegna þeirra. Þeir héldu hins vegar allir sínum heimilum. Sumir þeirra sátu reyndar inni í skamman tíma, en svo ég tali fyrir sjálfa mig þá hefði ég frekar kosið nokkurra mánaða fangelsi en ógnina sem ég bjó við í heil 11 ár auk þess að missa heimili mitt.

Þegar leið á þennan tíma var smátt og smátt búið að setja allar þær nýju reglugerðir um fjármálakerfið sem eiga að breyta öllu og koma í veg fyrir að þessar sömu hörmungar endurtaki sig. Með leyfi forseta, vil ég segja hæstv. fjármálaráðherra það að þessar reglugerðir breyta litlu fyrir neytendur sem eru upp á náð og miskunn bankanna komnir. Fjármálaeftirlitið er veikt, auk þess sem það lítur engan veginn á neytendavernd sem sitt hlutverk. Stefnt er að því leynt og ljóst að veikja Neytendastofu með því að færa verkefni hennar og fjármagn til annarra stofnana. Hagsmunasamtök heimilanna hafa, þó að ég segi sjálf frá, oft og tíðum verið eini aðilinn sem hefur veitt bankakerfinu aðhald og verið einu málsvarar neytenda á fjármálamarkaði. Þessi samtök eru rekin fyrir valkvæð félagsgjöld að mestu leyti og byggja á sjálfboðavinnu, auk tveggja starfsmanna í samanlagt einu stöðugildi. Ég er gríðarlega stolt af starfi þeirra og áhrif þeirra eru meiri en flestir gera sér grein fyrir. En það er engu að síður við ofurefli að etja í baráttu við heilt bankakerfi og það gríðarlega fjármagn sem þar er, ásamt, því miður, ríkisstjórn og embættismannakerfi sem alltaf setja hagsmuni fjármálakerfisins framar hagsmunum heimilanna. Hrunið hefur ekki verið gert upp og á meðan svo er ekki er vantraust á milli þjóðar og fjármálakerfisins og sennilega ríkisstjórnarinnar líka, a.m.k. hvað þennan málaflokk snertir.

Rætt hefur verið um samfélagslega ábyrgð banka. Á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar með seðlabankastjóra sagðist hann gera ráð fyrir og í raun ætlast til að bankarnir myndu sýna samfélagslega ábyrgð. Þetta er umorðað en ég held ég hafi skilið seðlabankastjóra rétt. Ég deili því miður ekki þeirri trú hans á að bankar sýni samfélagslega ábyrgð. Ég hef ekki séð nein merki um hana og bendi á að minni eigin baráttu við banka eftir hrunið 2008 lauk ekki fyrr en í nóvember 2019. Þrátt fyrir allt regluverkið neytti bankinn þess gríðarlega aflsmunar sem hann bjó yfir til fulls og ég sá aldrei nein merki um nokkuð annað en að þeir ætluðu að ná því sem þeir gætu, hvað sem það kostaði og þó að ég og mín fjölskylda stæðum allslaus eftir.

En ef fjármálaráðherra og Bankasýslan deila þessari trú seðlabankastjóra, var eitthvað gert til þess að tryggja þessa samfélagslegu ábyrgð áður en salan fór fram? Var þessi trú eitthvað rædd við væntanlega kaupendur eða settir einhvers konar skilmálar í útboðsgögnin? Eða á bara að láta skeika að sköpuðu?

Þegar rætt var um sölu Íslandsbanka í efnahags- og viðskiptanefnd komu þangað gestir, t.d. frá Bankasýslunni, Kauphöllinni og fjármálaráðuneytinu. Allir voru þessir aðilar mjög hlynntir sölu og endurtóku sömu möntruna um kosti hennar af mikilli trúfestu. Þeir töldu að salan myndi styrkja fjármögnunarumhverfi íslenskra fyrirtækja, gagnast íslensku fjármálaumhverfi og laða að erlenda fjárfesta, svo eitthvað sé nefnt. Einnig var töluverð áhersla lögð á áhættu ríkisins við að eiga banka, en á sama tíma var talið jákvætt og æskilegt að lífeyrissjóðirnir myndu fjárfesta í þeim. Þegar spurt var um hvort ríkið myndi, ef allt færi á versta veg, stökkva inn og bjarga bönkunum, var reynt að komast hjá svörum um það, en þó mátti skilja að þannig myndi það vera.

Hver er þá áhættan fyrir ríkið? Bankarnir hafa hagnast gríðarlega á undanförnum áratug og nú verður þeim hagnaði beint í vasa hæfra fagfjárfesta þangað til einhvers konar bankakreppa verður og þá mun ríkið taka það á sig án þess að vera búið að hagnast á rekstrinum árin á undan. Að hvaða leyti er það jákvætt eða minnkun á áhættu? Það má segja að allir útgangspunktar Kauphallarinnar, Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins hafi verið út frá hagsmunum fjárfesta og markaðarins, en neytendur voru einhvers konar afgangsstærð eins og eitthvað ofan á brauð sem skiptir litlu máli. Reyndar var rætt um að sala bankanna myndi skila sér í aukinni samkeppni neytendum til hagsbóta. Dettur einhverjum í alvörunni í hug að allt í einu verði til samkeppni á bankamarkaði vegna þess að ríkið selur banka? Stóð ríkið þá í vegi fyrir samkeppni? Þetta er þvílíkt bull að það tekur engu tali. Á Íslandi er fákeppni á bankamarkaði. Það vita allir að það er engin raunveruleg samkeppni milli bankanna og það mun ekki breytast með því að búið sé að selja einn banka í viðbót. Ekki reyna að telja okkur trú um það.

Alþýðusamband Íslands er hins vegar alfarið á móti sölunni og fulltrúar þess mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og ítrekuðu afstöðu ASÍ, sem kom fram í ályktun miðstjórnar frá 20. janúar 2021. Ég les hér brot af ályktuninni, með leyfi forseta:

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega áformum um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka við þær óvissuaðstæður sem eru uppi. Miðstjórn ASÍ gagnrýnir þann flýti sem einkennir ferlið og telur ekki hafa verið færðar fram fullnægjandi röksemdir fyrir sölunni. Mikilvægt er að ríkið, fyrir hönd almennings, sé með aðkomu að fjármálamarkaði og haldi uppi samfélagslegum sjónarmiðum við endurreisn efnahagslífsins. […] Óvíst sé hvort salan myndi auka samkeppni á fjármálamarkaði og núverandi tímapunktur sé ekki ákjósanlegur í ljósi efnahagslegrar óvissu.“

Ályktun ASÍ endar á eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Miðstjórn ASÍ hafnar því að selja þurfi hlut ríkisins til að bæta stöðu ríkissjóðs eða fjármagna fjárfestingar í samfélagslegum innviðum. Nýlegar skattalækkanir á fjármagnseigendur benda ekki til þess að ríkisstjórnin hafi þungar áhyggjur af afkomu ríkissjóðs. Ákall um sölu á banka kemur ekki frá almenningi sem að miklum meirihluta er mótfallinn slíkri sölu og jákvæður í garð ríkisins sem eiganda banka.“

Fulltrúar ASÍ mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og ítrekuðu þá afstöðu sem þarna kemur fram ári eftir að hún var skrifuð.

Þegar til kom var eftirspurnin eftir að fjárfesta í Íslandsbanka meiri en framboðið. Maður skyldi ætla að við það fengist hærra verð fyrir bankann en við var búist, því að þannig virkar jú lögmálið um framboð og eftirspurn. En við sem ekki erum útvalin eigum núna að skilja að markaðslögmálin eigi ekki við á markaðnum. Markaðslögmálin, sem eru í hávegum höfð einmitt af fjárfestum og þeim sem vilja einkavæða allt sem gefur einhvern hagnað — því að öllu sé betur komið í samkeppni á markaði þannig að markaðurinn ráði verði í samræmi við framboð og eftirspurn, eru að engu höfð þegar verið er að selja vel völdum fagfjárfestum banka. Ef þessir hæfu fjárfestar voru ekki tilbúnir til að greiða uppsett verð þá var það þeirra mál. Eftirspurnin var mikil. Ég er viss um að þarna er verið að selja mjög arðsaman fjárfestingarkost og að þeir hefðu flestir keypt hvort eð er, því að þetta eru jú hæfir fagfjárfestar sem þekkja góðan díl þegar þeir sjá hann. En var yfirleitt látið á það reyna? Okkur hefur reyndar verið sagt að það sé venja að gefa afslátt í svona kaupum. En hver kom þeirri venju á og er einhver sérstök ástæða til að beygja sig undir hana? Þegar ríkið munar verulega um þessa 2 milljarða sem um ræðir samkvæmt síðustu fjárlögum eru t.d. ekki til nema 430 milljónir fyrir almannatryggingakerfið á næstu fjórum árum. Almannatryggingakerfið er verulega illa statt og upp á síðustu fjárlög vantaði meira en 430 milljónir í það til að tryggja lögbundnar hækkanir sem þá voru orðnar svo lífeyrir almannatrygginga héldi í við verðbólgu sem núna er 6,7%. Þessir 2 milljarðar, sem fjárfestarnir fengu á silfurfati, hefðu aldeilis komið sér vel þar, eða til að fjölga hjúkrunarrýmum fyrir aldraða umfram þessi 364 sem nú eru fjármögnuð, því að það er öllum ljóst að þau rými uppfylla ekki þörfina.

Hvernig er hægt að umgangast fé almennings með slíkri lítilsvirðingu af því að fjárfestar eru vanir að fá afslátt? Það er kunnuglegur fnykur frá 2007 af því sem er að gerast núna. Það berast fregnir af gríðarlega háum arðgreiðslum sem venjulegt fólk hefur ekki einu sinni forsendur til að tengja við, jafnvel frá fyrirtækjum sem fyrir skemmstu fengu stórar upphæðir úr ríkissjóði af því að þau stóðu svo illa. Sú fjárhagsaðstoð hefur ekki verið greidd til baka því að greiðsla í sköttum felur ekki í sér endurgreiðslu láns, eins og sumir vilja meina.

Það berast líka fregnir af ofurlaunum forstjóra ríkisfyrirtækja sem eru ekki í neinu samræmi við kjör á vinnumarkaði. Hagnaður bankanna er í hæstu hæðum og núna er verið að koma þeim í hendur fjárfesta bæði hratt og örugglega. Sporin hræða. Það virðist vera að byrja nýtt partí á Íslandi eins og 2007, en á sama tíma berast fregnir af því að einstætt foreldri á lágmarkslaunum sé tæknilega gjaldþrota, að þar vanti 83.000 kr. í hverjum mánuði upp á að það geti framfleytt sér og að hjá pari með tvö börn sé rekstrarhallinn tæpar 90.000 kr. á mánuði. Ætli það sé fólkið sem mun sitja uppi með timburmennina þegar partíinu lýkur? Mun sauðsvartur almúginn, sem ekki er með í partíinu, eiga að borga þrifin eins og síðast? Flokkur fólksins segir nei við því. Aldrei aftur.