152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það má kannski segja að við ræddum það aldrei innan nefndarinnar þegar við fengum þessa heimsókn og kynningu á þessu verklagi og kannski var það vegna þess að við hugsuðum alltaf stórt, veltum alltaf fyrir okkur hverjir það væru sem gætu keypt og hugsuðum kannski fyrst og fremst um lífeyrissjóðina og einhverja almenna stóra fjárfesta sem við sæjum fyrir okkur sem langtímafjárfesta. Ég ætla ekki að halda neinu fram fyrr en ég er búin að fá einhver svör frá Bankasýslunni um það og hvernig þessa aðkomu minni fjárfesta bar að, hvernig þeir voru valdir og allt það sem hér hefur komið fram í dag. Ég ætla ekki að fella neina stóra dóma um hvort það var eðlilegt eða ekki. Ég tel að það sé heppilegra að bíða útskýringa og svara við því hvernig þetta fór fram áður en ég tek afstöðu. En sannarlega tek ég undir það að það er engu að síður óheppilegt að um þetta fyrirkomulag, sem við töldum að væri gott, að mínu mati a.m.k., ríki einhver óskýrleiki sem styrkir ekki stoðirnar undir því trausti sem við viljum að bankakerfið hafi. Það er anginn sem ég hef áhyggjur af í þessu samhengi.