152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:12]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir svarið. Það er svolítið merkilegt að velta því fyrir sér af hverju þetta var ekki rætt. Hæstv. ráðherra talaði um áðan að þetta hefði hvergi komið fram í umsögn til að mynda frá nefndinni, hvorki meiri hluta né minni hluta, en ég ætla leyfa mér að fullyrða að það hafi verið vegna þess að flestir gerðu ráð fyrir því að þegar verið var að tala um langtímafjárfesta sem þyrftu að fá sérmeðferð þá væru það bara risastórir fjárfestar. Ég er ekkert viss um að hægt sé að gera þá kröfu að fjárlaganefnd hefði átt að skrifa um þetta í umsögn sinni. Bankasýslunni, sem á að vera svo fagleg, á að hafa svo mikla þekkingu, var treyst út frá armslengdarsjónarmiði til þess að fara með þetta vald. Hún hefði náttúrlega átt að sjá þetta. Að því leytinu til hef ég skilning á því að meiri hlutinn hafi ekki birt þetta í sínu áliti vegna þess að ég held að flestir hafi bara gert ráð fyrir að svona yrði ekki farið með tilboðsferlið.

En mig langar til að velta því upp við hv. formann fjárlaganefndar, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, hvort hún muni ekki ásamt fleirum, þá sérstaklega okkur í minni hlutanum, ýta á eftir því, líkt og hæstv. fjármálaráðherra hefur komið inn á að sé vilji til að gera, að birtur verði fullur listi yfir þá sem keyptu. Það verði þá gripið til sérstakra úrræða ef þarf svo öll þessi nöfn séu birt og menn feli sig ekki á bak við einhverja bírókrasíu, þannig að við fáum líka að sjá, við í nefndinni og almenningur, fyrir hverju fólk skráði sig og hvers vegna aðilar voru skertir.