152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:16]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Við ræðum nú sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem hingað til hefur farið fram í tveimur áföngum. Píratar lýstu afstöðu sinni gagnvart sölunni í álitum sínum í gegnum hv. efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd fyrir söluna og mun ræða mín að miklu leyti byggja á þeim álitum en fyrst finnst mér mikilvægt að árétta eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi var afráðið að fara aftur af stað með söluferli án þess að fyrra söluferli hafi verið greint með viðeigandi hætti. Þetta var misráðið að mínu mati þar sem fyrri salan var misheppnuð, eins og ég kem nánar að hér á eftir. Í öðru lagi er það gagnrýnivert að upplýsingar um uppgjörið vegna seinni sölunnar liggja ekki fyrir þrátt fyrir að boðað hafi verið að uppgjörið myndi liggja fyrir í fyrradag. Af þeim sökum er erfitt að taka upplýsta umræðu um hvort yfirlýstum markmiðum með sölunni og týpunni af söluferli sem var valin hafi verið náð. Það er óljóst hverjir keyptu, hvernig þeir voru valdir, hverjir fengu ekki að kaupa og hvers vegna. Það er sérlega gagnrýnivert, með tilliti til orða hæstv. ráðherra áðan um gagnsæi og jafnræði, að enn hafa ekki fengist upplýsingar um söluna að fullu. Loks finnst mér mikilvægt að leiðrétta misskilning sem virðist vera uppi um afstöðu Pírata gagnvart sölunni á Íslandsbanka. Því hefur verið haldið fram að Píratar hafi stutt þetta söluferli. Því fer fjarri, virðulegi forseti, eins og ég mun fara yfir. Afstaða Pírata er sú að við séum ekki í prinsippinu mótfallin því að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka, að það sé einmitt ekki endilega æskilegt að ríkið eigi tvo banka. En við höfum hvorki stutt þetta söluferli né það fyrra vegna margvíslegra athugasemda sem við höfum gagnvart ferlinu, tímasetningunni á sölunni og verklagi ráðherra sem bera ábyrgð á þessu ferli. Nú sný ég mér að þeim athugasemdum, virðulegi forseti.

Í bréfi til fjármála- og efnahagsráðherra frá Bankasýslu ríkisins sem fjallar um sölu Íslandsbanka og áform um áframhaldandi sölu bankans segir, með leyfi forseta:

„Þann 22. júní sl. voru hlutir í Íslandsbanka teknir til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallar Íslands eftir vel heppnað frumútboð á rúmum 35,0% af hlutafé í bankanum á 79 kr. á hvern hlut. Nam söluandvirði hlutanna 55,3 ma. kr. og var þetta stærsta frumútboð og næst stærsta almenna útboð á hlutabréfum á Íslandi. Í dag var lokaverð á hvern hlut 124,6 kr. og markaðsvirði hlutafjár í bankanum því 249,2 ma. kr. og markaðsvirði 65,0% eignarhlutar ríkisins í honum þar með 162,0 ma. kr.“

Hér segir Bankasýslan að 57,7% hækkun á verðgildi hlutanna í kjölfar fyrri sölu sé vel heppnuð aðgerð. Samkvæmt umsagnaraðilum sem komu fyrir hv. fjárlaganefnd er eðlilegt að seljandi vilji að andvirði hlutafjárins í svona frumútboði hækki eitthvað í kjölfar útboðsins. Í sögulegu samhengi gæti seljandi talið að slíkt útboð væri vel heppnað ef andvirði hlutabréfanna myndi hækka um til að mynda 10% eða svo. En einu aðilarnir sem gætu talið að fyrra útboðið hafi verið vel heppnað eru kaupendurnir, því að þarna er verið að gefa kaupendum um 27 milljarða kr., sem er munurinn á milli 10% hækkunarinnar sem ætti að vera æskileg og 57% hækkunarinnar sem varð í raun. Vandinn er auðvitað að það er Bankasýslan sem skipulagði útboðið. Því er hún augljóslega ekki óháður aðili til að meta það hvort útboðið hafi verið vel heppnað eða ekki.

Virðulegi forseti. Yfirlýst markmið með sölunni voru:

1. Að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu.

2. Að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði.

3. Að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutunum.

4. Að stuðla að fjölbreyttu heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma.

5. Að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta.

6. Síðast en ekki síst, að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Ef það á að meta hvort útboðið hafi verið vel heppnað eða ekki þá hlýtur að þurfa að skoða hvort einhverjum af ofangreindum markmiðum hafi verið náð. Nokkur markmiðanna eru langtímamarkmið og erfitt að meta þau í dag. Það er hins vegar hægt að gera athugasemd nú þegar við ýmis af þessum atriðum.

1. Að minnka áhættu. Í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar kemur fram að talsverð áhætta sé í núverandi rekstrarmódeli viðskiptabanka út af tækniframförum. Á sama tíma er samt ítrekað að ríkið ætli að halda áfram að eiga meiri hluta hlutabréfa í Landsbankanum. Einnig kemur fram hjá umsagnaraðilum að viðskiptabankarnir hafi hvort sem er verið reknir sem einkabankar á undanförnum árum og því væri spurning hvers vegna ríkið væri að standa í slíkum rekstri. Ábendingin þar vegna áhættu banka væri þá vísun í að í þess háttar bankarekstri er tekin áhætta sem hið opinbera myndi ekki taka. Píratar benda á þversögnina í þessu áhættumati. Það sé nákvæmlega jafn mikil áhætta fyrir ríkið að eiga banka og hafa þá einkarekna, a.m.k. ef bankakerfið fer á hausinn. Kostnaður ríkisins yrði líklega svipað mikill, hvort sem bankarnir væru einkareknir eða í opinberri eigu. Það þýðir ekki að bankar eigi bara að vera reknir á opinberum forsendum heldur þýðir það einfaldlega að það að minnka áhættu séu ekki gild rök fyrir sölu. Rökin um að láta einkaframtakið sjá um tækniframfarir í bankaþjónustu eru betri en þau útskýra þó ekki eigu ríkisins á Landsbankanum. Áhættan af sölu Íslandsbanka kom svo bersýnilega í ljós í kjölfar frumútboðsins. Áhættan af því að bankinn hafi verið undirverðlagður var miklu meiri en áhætta ríkisins af öðrum atriðum því að það er ýmislegt hægt að gera fyrir þá 27 milljarða sem verðið var vanmetið um.

2. Að efla virka samkeppni. Það er óljóst hvort þessu markmiði hafi verið náð eða muni verða náð. Umsagnaraðilar bjuggust flestir við því að lífeyrissjóðirnir yrðu þeir sem keyptu í Íslandsbanka. Það er ekki beinlínis samkeppniseflandi þar sem lífeyrissjóðirnir eru einmitt í samkeppni við bankana um íbúðalán og fjárfestingar. Eins er markviss undirfjármögnun Samkeppniseftirlitsins áhyggjuefni í þessu sambandi þar sem stofnunin á í erfiðleikum með að sinna eftirlitshlutverki sínu vegna undirmönnunar. Ekki er að finna nein áform ríkisstjórnarinnar um að efla getu Samkeppniseftirlitsins til eftirlits samhliða sölunni, sem er áhyggjuefni.

3. Að hámarka endurheimtur ríkissjóðs. Þessu markmiði hefur augljóslega ekki verið náð og hefur ráðherrann sjálfur meira að segja dregið í land með það og sagt að það hafi aldrei verið aðalmarkmiðið. Kannski er ekki annað hægt en að draga í land miðað við hvernig fór, 27 milljarðar í gjafaumbúðum til kaupenda úr vasa almennings. Hvers vegna var ekki byrjað að selja minni hlut en 35% á meðan verðmætið var enn óráðið til þess að ætlað tap yrði minna fyrir ríkið? Í seinna hollinu fóru 2,25 milljarðar úr vasa almennings í afslátt til kaupenda þrátt fyrir að mikil umframeftirspurn væri eftir hlutunum og að bæði lífeyrissjóðir og almennir fjárfestar væru til í að fjárfesta yfir útboðsgengi, en var hafnað. Það skilur eftir spurningar um af hverju selt var með viðlíka afslætti til fjárfesta fyrir lægra verð og minna umfang. Hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór mjög vel yfir þennan þátt málsins í ræðu sinni hér áðan og ég tek heils hugar undir með henni að öllu leyti.

4. Að stuðla að fjölbreyttu eignarhaldi til framtíðar. Hér voru umsagnaraðilar allir sammála. Það væri engin trygging um slíkt við söluna þar sem hverjum og einum er frjálst að selja sína hluti í framtíðinni. Eignarhaldið yrði að sjálfsögðu örugglega dreifðara heldur en ef ríkið ætti allt hlutafé. En það er engin trygging fyrir því að eignarhaldið verði fjölbreytt, hvað þá heilbrigt, enda sáum við það að viku eftir fyrri söluna seldu stórir erlendir fjárfestar megnið af bréfum sínum með 20–25% hagnaði. Það hver tekur þátt í hverju útboði fyrir sig er engin trygging á áframhaldandi eignarhaldi.

5. Að auka fjárfestingarmöguleika. Þetta markmið uppfyllist að sjálfsögðu sjálfkrafa við söluna en það er allt annað mál hvort það hafi verið góð hugmynd að gera þetta núna og á þann hátt sem salan fór fram.

6. Að minnka skuldsetningu og/eða að fara í arðbærar fjárfestingar. Það er til ágætisgreining á því hvernig skuldsetning þróast til næstu ára ef ríkið tekur lægri lán. Það er tiltölulega auðvelt að reikna út þær stærðir. Það er erfiðara að reikna út arðsemi þess að eiga bankana hins vegar. Það er athyglisvert vegna þess að það er líka erfiðara að sjá hvaða fjárfestingar væru arðbærari en að eiga banka, þ.e. ef það á að nota söluandvirði Íslandsbanka í eitthvað arðbærara. Það væri því heppilegt að hafa einhverjar greiningar á því samhliða markmiðunum um arðbærar fjárfestingar, því að það liggur ekki fyrir af hverju þessi tímasetning var valin umfram aðrar eða af hverju seinna útboðið var afgreitt í slíkum flýti. Það má einnig og sérstaklega velta fyrir sér með hliðsjón af óvissu á mörkuðum þessa dagana vegna Covid og stríðsins í Úkraínu hvers vegna þessi tímapunktur af öllum var valinn til að selja í seinna skiptið.

En hvernig á þá að selja bankann, virðulegi forseti? Bankasýslan mælti með að Íslandsbanki yrði seldur með tvenns konar fyrirkomulagi í bland, annars vegar utan markaðar og hins vegar samkvæmt miðlunaráætlun. Sala utan markaðar, eða á ensku „over-the-counter“-sala, með leyfi forseta, er til ákveðinna fjárfesta sem mæta ákveðnum kröfum seljanda. Í slíkum viðskiptum er algengt að veittur sé einhver afsláttur. Hitt fyrirkomulagið er hefðbundin sala á markaði þar sem seljandinn gefur út tíma og magnsetta miðlunaráætlun. Þriðja aðferðin, sem gjarnan er notuð, er aðferðin sem var notuð í frumútboðinu, svokallað markaðssett útboð. Það er dýrara ferli, yfirleitt vegna þess að það er flókið að verðsetja hlutabréfin. Nú er verðið hins vegar þekkt og þar af leiðandi var áhættan minni við að fara þá leið. Miðlunarleið er almennt góð leið til að selja en það tekur langan tíma að selja stóran hlut í bankanum með henni. Að okkar mati hefði verið eðlilegra að fara í annað markaðssett útboð ef markmið sölunnar er að finna nýja eigendur að bankanum. Ef markmiðið er einnig að hámarka heimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu þá er tilboðsleið utan markaðar sem yfirleitt er með afslætti einmitt ekki heppileg, eins og komið hefur í ljós, til slíkrar hámörkunar. Miðlunarleið hámarkar heimtur og nú þegar markaðsverðið er þekkt þá gerir markaðssett útboð það einnig. En tilboðsleið var farin án þess að fyrir liggi að markmiðunum með því ferli og þeirri leið hafi verið náð. Það er ekki búið að réttlæta fyrir okkur hvers vegna afsláttur var gefinn miðað við umframeftirspurn, hverjir fengu að kaupa og hverjir fengu ekki að kaupa og hvers vegna eða hvort jafnræðis og gagnsæis hafi verið gætt við söluna.

Forseti. Pólitík er réttlætanleg ástæða til að selja Íslandsbanka, en til þess að hægt sé að taka pólitíska ákvörðun þá þurfa valkostirnir og markmiðin að vera til staðar, annars er ekki um pólitíska ákvörðun að ræða heldur geðþóttaákvörðun. Það er búið að undirbúa sölu bankanna í langan tíma, það er rétt. Það er búið að reka þá eins og um einkarekin fyrirtæki væri að ræða með það að markmiði að hámarka verðmæti þeirra svo hægt sé að selja þá. Verðmæti bankans endurspeglast í eigin fé og arðsemi bankans en hér ber að hafa í huga að arðsemi bankanna kemur frá neytendum, fólkinu sem tekur lán fyrir húsnæði á háum vöxtum. Krafan um arðsemi bankanna kemur frá handhafa eignarhalds ríkisins á bönkunum, kemur frá eiganda bankans, fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta þýðir bókstaflega að vextir bankanna þurfa að vera hærri en þeir væru ef arðsemiskrafan væri lægri. Venjulegt fólk sem tekur lán er að borga fyrir þessa ávöxtunarkröfu ráðherra. Fólk sem tekur lán er að borga meira til þess að hækka verðmiðann á Íslandsbanka og þegar bankinn var svo loksins seldur var hann seldur með 27 milljarða kr. afslætti. Það er rétt 1% af vergri landsframleiðslu síðasta árs sem fjármála- og efnahagsráðherra gaf frá sér af sameiginlegri eign okkar allra. Slík pólitík sem klúðrar sölu á almannaeign með svo stjarnfræðilegum hætti hefði ekki undir neinum kringumstæðum átt að fá að halda áfram.

Þótt almennt séð geti það verið góð hugmynd að selja Íslandsbanka, meira að segja núna, og þó að það sé almennt góð hugmynd að losa um eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum þannig að ríkið eigi ekki tvo banka, þá skiptir máli hvernig slík sala fer fram. Það ætti að vera öllum augljóst að frumútboð Íslandsbanka klúðraðist algerlega frá sjónarhóli hins opinbera. Við öll töpuðum 27 milljörðum í vasa þeirra sem gátu keypt í bankanum. Nú í seinna skipti töpuðum við að lágmarki 2,25 milljörðum, ef ekki meira, miðað við umframeftirspurn. En það er ekki kaupendum að kenna, virðulegi forseti, heldur ráðherra.