152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:44]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Það að selja eignir ríkisins krefst þess að vel sé vandað til verka og fullkomins gagnsæis og jafnræðis sé gætt. Sú aðferð sem notuð var við fyrri sölu bankanna gerði fólk tortryggið gagnvart sölu ríkiseigna og óljóst hvernig þeir fjármunir sem fengust fyrir þá sölu voru nýttir. Þegar Síminn var seldur á sínum tíma var alltaf gert ráð fyrir að þeir fjármunir færu í byggingu nýs Landspítala en ákveðnir stjórnmálamenn tóku sér það bessaleyfi að henda þeim í það efnahagslega svarthol sem myndaðist eftir hrun. Þann 22. mars síðastliðinn seldi svo Bankasýsla ríkisins mjög óvænt 22,5% hlut í Íslandsbanka á 117 kr. á hlut eða fyrir samtals 52,7 milljarða. Útboðið fór fram með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi með þátttöku innlendra og erlendra hæfra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila, eins og það er nefnt. Í fyrra útboði var hins vegar seldur 35% hlutur í bankanum og því er ríkið orðið minnihlutaeigandi í Íslandsbanka.

Viðreisn gerði ekki athugasemdir við sölu bankans og telur að með sölunni sé verið að minnka áhættu ríkisins af stórum eignarhlut í umræddu fjármálafyrirtæki. Það eitt geti stuðlað að virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Viðreisn lagði einnig áherslu á að við söluna yrði litið til þeirra viðmiða sem fram koma í umsögn Samkeppniseftirlitsins, sér í lagi varðandi það að stefnt verði að sem fjölbreyttustu eignarhaldi aðila sem hafa að leiðarljósi langtímahagsmuni þjóðarinnar af traustum bankarekstri. Mikilvægt er að eignarhald bankans sé dreift og að kaupendur á hlutum í bankanum hafi ekki ríkra hagsmuna að gæta sem beinir samkeppnisaðilar bankans, eigendur stórra hluta í samkeppnisaðilum bankans eða séu umsvifamiklir viðskiptavinir hans.

Viðreisn telur enn fremur mikilvægt að hagnaði ríkissjóðs af sölu Íslandsbanka verði ekki ráðstafað í almennan rekstur ríkisins. Þar sem um einskiptistekjur er að ræða er brýnt að þeim verði varið í samfélagslega arðbærar innviðafjárfestingar og/eða niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Það er hins vegar ekki ljóst á þessum tímapunkti hvernig andvirði af sölu bankans verður varið. Munu þessir fjármunir verða nýttir í uppgreiðslu skulda eða í innviðafjárfestingu eða verða þessir fjármunir bara nýttir í ósjálfbæran rekstur ríkissjóðs? Ríkisstjórnin þarf að gera grein fyrir þessu.

Þá vekur það athygli hversu hratt salan gekk fyrir sig og það eitt og sér vekur tortryggni. Hvers vegna var ekki hægt að auglýsa eftir áhugasömum kaupendum með meiri fyrirvara? Hefði það ekki getað gert erlendum aðilum kleift að undirbúa tilboð í hlut í bankanum eða var þessi leið farin til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar gætu keypt þar sem það hefði getað skapað þrýsting á krónuna? Eða eru allar okkar efnahagslegu aðgerðir miðaðar við það að verja þessa löskuðu krónu?

Við hljótum einnig að spyrja hvernig þeir sem fengu að kaupa voru valdir. Það liggur fyrir að um umframeftirspurn var að ræða og því má gera ráð fyrir að einhverjir áhugasamir hafi ekki fengið að kaupa. Hvernig voru kaupendur valdir? Þegar verið var að hugsa um dreifða eignaraðild, eins og fjármála- og efnahagsráðherra hefur látið hafa eftir sér, hvers vegna var þá ekki farin sú leið sem farin var í upphafi, þ.e. að bjóða almenningi að kaupa hlut í bönkunum? Þá liggur heldur ekki fyrir að verið sé að tryggja heilbrigða samkeppni á bankamarkaði. Er það t.d. af hinu góða að lífeyrissjóðir sem hafa verið í samkeppni við bankana á lánamarkaði verði stærstu eigendur bankanna eða væri kannski rétt að heimila þeim auknar fjárfestingar í útlöndum í staðinn?

Virðulegur forseti. Þessi aðferð sem valin var virðist hafa hleypt illu blóði í stóran hluta almennings sem tortryggir þetta ferli. Sala ríkiseigna má ekki verða til þess að skapa úlfúð í samfélaginu. Það á að vera hafið yfir allan vafa að heiðarleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð þegar verið er að sýsla með almannafé. Það skiptir máli að vel sé að hlutunum staðið.

Líkt og ég nefndi áður er það að mínu mati jákvætt að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Salan er til þess fallin að minnka áhættu ríkisins. Staðan er sú að þótt rekstur bankans hafi verið arðbær síðustu árin þá er hann í eðli sínu áhættusamur og ríkið á ekki að taka áhættu í meðferð almannafjár. Salan er einnig til þess fallin að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði enda getur það verið samkeppnishamlandi að ríkið eitt, eða nánast eitt, sé eigandi að tveimur þriðju hlutum markaðarins. Þannig eru gæði falin í því að stuðla að fjölbreyttu og dreifðu eignarhaldi en þá þarf líka að tryggja það að eignarhaldið sé fjölbreytt og dreift. Við þurfum að hafa vissu fyrir því að söluferlið taki mið af því.

Öll skref sem stuðla að aukinni erlendri fjárfestingu eru líka jákvæð. Íslenskur markaður er ekki sérlega eftirsóknarverður fyrir erlenda aðila fyrir margra hluta sakir. Í janúar á síðasta ári var það haft eftir framkvæmdastjóra Deutsche Bank á Norðurlöndum að það myndi ekki svara kostnaði fyrir alþjóðlega banka að hefja hér starfsemi. Hann sagði líka engan vafa leika á því að íslenska krónan væri stór hindrun. Það ætti þó ekki að koma nokkrum á óvart að það myndi auka hér erlenda fjárfestingu, auka þjónustuframboð fyrir neytendur og gera samkeppni virkari ef við hefðum evru. Krónan stendur í vegi fyrir þessu. Það á ekki einungis við á bankamarkaði. Aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að erlendu fjárfestingarfé væri greiðara ef við hefðum alþjóðlegan gjaldmiðil og stöðugra vaxtaumhverfi. Það er áhættusamt að færa fé til Íslands. Og rétt eins og hæstv. innviðaráðherra nefndi hér um árið: Það er talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að samkeppni á bankamarkaði sé virk. Þar skiptir eignarhaldið lykilmáli. Við þurfum að hafa vissu fyrir því að kaupendur að stórum hluta með Íslandsbanka séu líklegir til að hafa langtímahagsmuni af traustum bankarekstri að leiðarljósi. Það skerðir t.d. hvata til innbyrðissamkeppni ef kaupendur eiga jafnframt hluti í keppinautum bankans. Það skapar hættu á hagsmunaárekstrum ef þeir eru umsvifamiklir viðskiptavinir hans, t.d. ef þeir ættu fyrir vikið greiðari aðgang að fjármögnun en aðrir samkeppnisaðilar þeirra. Þetta skapar augljósa hættu út frá sjónarmiði fjármálastöðugleika. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í kjölfar fjármálahrunsins var því lýst að stærstu eigendur allra stóru bankanna hefðu fengið óeðlilega greiðan aðgang að lánsfé hjá þeim bönkum sem þeir áttu, að því er virtist í krafti eignarhalds síns. Af þessari reynslu þurfum við að draga skýran lærdóm.

Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út árið 2018, segir m.a. að heilbrigt eignarhald á bönkum sé mikilvæg forsenda fyrir fjármálastöðugleika og trausti almennings á bankakerfinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Til að fara með ráðandi eignarhald í banka þurfa eigendur að njóta óskoraðs trausts sem byggist á reynslu þeirra, þekkingu og heiðarleika í viðskiptum. Eigendur sem hafa langtímahagsmuni að leiðarljósi eru líklegri til að styðja við rekstur bankans til framtíðar og sjá sér hag í því að stuðla að varanlegu trausti og langtíma viðskiptasamböndum. Mikilvægt er að stærstu eigendur kerfislega mikilvægra banka hafi fjárhagslega burði til að standa á bak við bankana á erfiðum tímum. Æskilegt er að helstu eigendur banka, og fulltrúar þeirra í stjórn, hafi yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi sem nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku.“

Þess vegna er óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ekki hafi legið fyrir frá upphafi útboðs hverjum byðist að kaupa hluti í Íslandsbanka. Hvaða fagfjárfestar voru valdir til að kaupa hlutinn í bönkunum? Hvaða skilyrði þurftu þeir að uppfylla? Hvernig var jafnræði bjóðenda tryggt? Hvers vegna voru þessar upplýsingar ekki opinberar áður en salan fór fram? Er það ekki sjálfsögð krafa, sérstaklega í ljósi þess hversu langan tíma söluferli bankans hefur tekið?

Annað atriði sem nefnt var í hvítbókinni er gagnsætt eignarhald. Það er mikilvæg forsenda þess að mat verði lagt á áhættuþætti varðandi samþjöppun eignarhalds. Við þurfum því líka að horfa til lífeyrissjóðanna. Þeir voru stórir eigendur fyrir og við getum getið okkur til að hlutfallsleg eign þeirra hafi aukist við söluna. Hver er hlutur sömu lífeyrissjóða í öðrum bönkum og hver er samkeppnisstaða þeirra gagnvart bönkunum á fasteignalánamarkaði? Vegna innlendrar fjárfestingar eiga lífeyrissjóðirnir líka hagsmuna að gæta sem veigamiklir hluthafar í ýmsum stærri fyrirtækjum landsins sem eru að auki meðal stærstu viðskiptavina bankans.

Virðulegur forseti. Fjölbreytt og dreift eignarhald og gagnsæi við sölu getur stuðlað að breiðri sátt um bankakerfið okkar. Léttúð í þeim efnum getur hæglega slátrað traustinu. Bein aðkoma sterkra erlendra fjárfesta hefði verið til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á samkeppnisumhverfi íslenskra bankaþjónustu til framtíðar, auka stöðugleika og minnka áhættu á krosseignatengslum. Hér sjáum við enn og aftur ókosti þess að vera smár markaður með smáan gjaldmiðil og flöktandi vexti. Salan er þó jákvæð, hafi verið rétt að henni staðið. Í vestrænum ríkjum er víðtækt ríkiseignarhald á viðskiptabönkum sjaldséð, heldur er eðlileg aðkoma ríkisins í gegnum reglu- og eftirlitskerfi sem stuðlar að heilbrigðu fjármálakerfi, ekki með beinu og áhættusömu og samkeppnishamlandi eignarhaldi.

Virðulegur forseti. Ég hefði viljað sjá annað og opnara vinnulag við sölu á þessum hlut í Íslandsbanka. Ferlið var að mínu mati ekki opið og gagnsætt og ekki til þess fallið að auka traust almennings á að vel hafi verið farið með almannafé. Ég fæ heldur ekki séð að allir þeir sem fengu að kaupa hafi verið hæfir, stórir fagfjárfestar sem ætla sér að fjárfesta til lengri tíma. Það hefði mátt hafa lengri aðdraganda að sölunni. Það hefði mátt kynna áhugasama bjóðendur fyrir fram, rétt eins og þegar fólk er að sækja um opinbert starf þá eru listar með umsækjendum lagðir á borðið. En það er ekki gert þegar verið er að selja fyrir milljarða tugi króna. Því miður var slíkt ekki gert og því er niðurstaðan sú að um þessa sölu ríkir ekki traust.