152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:12]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að veita munnlega skýrslu um þetta mál sem svo sannarlega brennur á mörgum. Það er mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að söluferlið sé allt saman opið og gagnsætt og það er einna helst það sem mig langar að benda á, hvað almenningi finnst um hvað hefði betur mátt fara. Ég mun leggja fram einhverjar spurningar, en ég ætlast ekki endilega til að ráðherra svari þeim öllum. Honum er að sjálfsögðu frjálst að gera það en ætti kannski frekar að taka þær sem ákveðið veganesti því að nú á enn eftir að selja einhvern hluta af bankanum og má því kannski læra af þessu hvað hefði betur mátt fara. Það er því miður þannig að almenningur telur ekki að þetta söluferli hafi verið mjög gagnsætt eða opið og það er náttúrlega skiljanlegt að hluta til vegna þess að það er ekkert mjög auðvelt að skilja hvernig svona hlutir gerast í þessum geira. Til dæmis bara hvað það þýðir að vera fagfjárfestir er eitthvað sem kannski ekki allir vita. En það er einmitt ekki neitt sem við ákveðum bara eða einhver ákveður sisvona, það er lagaskilgreining á því. Það er líka mjög gild ástæða fyrir því að það er til skilgreining á því hvað er að vera fagfjárfestir. Það er til þess að tryggja ákveðna neytendavernd vegna þess að þú vilt ekki að hægt sé að bjóða neytendum eitthvað sem þeir hafa kannski ekki nægilega mikla þekkingu á eða reynslu til þess að meta hvort sé góð fjárfesting eða ekki. Gott dæmi um þetta, ef við viljum taka eitthvað úr fortíðinni, er þegar verið var að selja hlutabréf fyrir 20 og eitthvað árum síðan í Decode. Það voru allir að kaupa þetta vegna þess að þetta átti að verða það næsta sem gerði mann ríkan. Fyrirtækið var ekki komið á markað þá og svo endaði það nú á því að bréfin urðu mun minna virði en flestir höfðu keypt fyrir. En þegar kemur að því að fara í útboð, og í útboð eins og var ákveðið að fara í núna, þ.e. einungis til fagfjárfesta, þá vakna að sjálfsögðu upp spurningar hjá almenningi um það hverjum var boðið að vera með í þessu útboði. Var öllum skráðum fagfjárfestum á Íslandi boðið? Ég veit reyndar ekki hvort sú skrá sé til. Hvernig umgjörð var um það og hvaða reglur voru um það hverjum var í raun boðið að vera með? Það er ein af stóru spurningunum sem allir spyrja sig þessa síðustu daga: Hver fékk að taka þátt og hver ekki? Jú, það er einfalt að segja að það voru fagfjárfestar, en var öllum fagfjárfestum leyft að vera með eða voru það einhverjir ákveðnir sem höfðu rétt tengsl?

Þegar kom að því að velja tilboðin, þá komum við aftur að þessari spurningu. Voru einhverjar reglur eða fyrir fram skilgreindar aðgerðir við það hvernig velja ætti þessi tilboð? Voru þessar reglur skýrar og aðgengilegar fyrir útboðið til fjárfestanna og verða þær birtar svo við getum séð hvaða reglur giltu?

Á hluthafalistanum birtast ekki neinir erlendir fjárfestar í þetta skiptið og spyr fólk sig því einnig hvort erlendum fjárfestum hafi verið boðinn aðgangur í þetta skipti, þessu öðru útboði, og þá hversu margir tóku þátt. Ef þeim var boðið og enginn tók þátt þá er það náttúrlega ákveðið rautt flagg. Þessu tengt: Hvaða reglur voru um val á því hvaða erlendu fjárfestar fengu að taka þátt í frumútboðinu og þessu seinna útboði? Það er nefnilega þannig að ef þessar reglur eru óljósar og ferlið er ekki gagnsætt þá vakna að sjálfsögðu upp efasemdir hjá fólki, hvort frændhygli, vinargreiðar og spilling hafi átt sér stað. Maður hefur m.a. séð bæði á samfélagsmiðlum og í fréttum og á netinu fólk spyrja hvort aðilar tengdir ráðamönnum hafi fengið að kaupa eða fjárfesta, eitthvað sem ekki stóð öðrum til boða. Já, það er nefnilega mjög eðlilegt að hræðsla við spillingu aukist þegar gagnsæið er ekki nógu gott. Nú er ég alls ekki að segja að það hafi verið spilling, frændhygli eða vinargreiðar, en að sjálfsögðu, að gefnu tilefni í ljósi sögunnar, er það eitthvað sem fólk hræðist og því er mjög mikilvægt að gagnsæið sé sem mest.

Hæstv. ráðherra benti á það hér áðan að birtur yrði listi yfir hvaða hluthafar keyptu, en það væri áhugavert að vita hvort listi yfir það hverjir gátu tekið þátt í útboðinu verði birtur líka. Eins er mikilvægt þegar þessi hluthafalisti birtist að raunverulegir eigendur hluta komi fram, ekki bara eignarhaldsfélögin þeirra, svo maður geti áttað sig á raunverulegum tengslum á milli eigenda. Auðvitað skulum við vona að enginn þessara kaupenda séu aflandsfélög sem erfitt er að rekja raunverulega eigendur á.

Það vekur líka upp ákveðnar spurningar að á núverandi hluthafalista er hægt að sjá bæði Landsbankann og Arion banka meðal stærstu hluthafa. Er þetta raunverulegt? Eru þetta bankarnir sjálfir að kaupa eða voru þeir að kaupa fyrir viðskiptavini? Ef þetta voru bankarnir sjálfir þá spyr maður: Er það af hinu góða að það sé eignarhald á milli allra þessara aðila?

Annað sem bent hefur verið á í tengslum við að hæstv. ráðherra talaði um kjölfestufjárfesta í fyrsta útboðinu, er að einhverjir af þeim stóru aðilum sem keyptu í frumútboðinu seldu mjög fljótlega og kom það mörgum á óvart því að í flestum svona útboðum er oftast settur binditími á slíka kjölfestufjárfesta.

Svona rétt til að klára ræðu mína langar mig að nefna tvo hluti. Annars vegar: Jú, það er gott að fá tekjur inn í ríkissjóð, 108 milljarða, en við megum heldur ekki gleyma því að bankinn hefur skilað arði í ríkissjóð undanfarin ár og hefði sennilega gert það á næstu árum þannig að tekjur ríkissjóðs á næstu árum munu verða aðeins lægri. Þetta er því ekki alveg eins einfalt og að segja bara að við höfum fundið 108 milljarða. Hins vegar langar mig að lokum að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að nú þegar bráðum stefnir í að það verði bara einn ríkisbanki, Landsbankinn, eru einhver áform uppi um að breyta þeim banka (Forseti hringir.) í samfélagsbanka þar sem arður og hagnaður fer ekki aftur inn í ríkissjóð heldur fer hann í kjarabætur og betra aðgengi að fjármagni fyrir almenning?