152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að lesa hér upp 3. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, með leyfi forseta:

„Þegar ákvörðun er tekin um undirbúning og framkvæmd sölumeðferðar eignarhluta skal áhersla lögð á opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Þess skal gætt að skilyrði þau sem tilboðsgjöfum eru sett séu sanngjörn og að þeir njóti jafnræðis. Þá skal við sölu kappkosta að efla virka og eðlilega samkeppni á fjármálamarkaði.“

Lykilorðin hérna eru opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni, hagkvæmni og jafnræði.

Í greinargerð með lögunum segir svo:

„Gert er ráð fyrir að bjóða skuli eignarhlut til sölu í opnu söluferli. Nauðsynlegt er hins vegar að rökstyðja sérstaklega ef ekki stendur til að bjóða hlut til sölu með þeim hætti. Slíkt fyrirkomulag kann í undantekningartilvikum að koma til greina,“ — í undantekningartilvikum — „t.d. við sölu á minni eignarhlutum ríkisins eða ef einhverjar sérstakar aðstæður kalla á að þetta fyrirkomulag sé viðhaft.“

Gott og vel. Í þessum öðrum hluta sölumeðferðar Íslandsbanka var ákveðið að víkja frá þessari almennu reglu um opið söluferli. Það var sem sagt ákveðið að í þetta sinn fengi almenningur ekki að taka þátt, að farið yrði í lokað útboð til hæfra fjárfesta. Og hvaða sjónarmið voru það sem lágu þarna að baki? Jú, það átti að fá að borðinu burðuga, hæfa fjárfesta, langtímafjárfesta, sem myndu þá treysta sér til að styðja við rekstur bankans til lengri tíma.

Um þetta talaði hæstv. fjármálaráðherra hérna áðan. Hann talaði líka um mikilvægi heilbrigðs eignarhalds. Í hvítbókinni um framtíð fjármálakerfisins, helsta stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, er talað sérstaklega um að huga þurfi að því við sölu ríkisins á eignarhlutum í bönkum að nýir eigendur séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við banka þegar á móti blæs. Þessum markmiðum átti sem sagt að ná með tilboðsfyrirkomulagi sem virkar þannig að söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði. Þetta er ósköp algeng aðferð við sölu á stórum hlutum í skráðum félögum á evrópskum hlutabréfamörkuðum. Ég held að mikilvægt sé að hafa í huga að það er ekkert óeðlilegt í slíku fyrirkomulagi að hlutirnir gerist ofboðslega hratt, að salan eigi sér stað eftir lokun markaða og niðurstaða liggi fyrir áður en markaðir opna daginn eftir. Og það er heldur ekkert óeðlilegt að veittur sé afsláttur. Afslátturinn er einmitt eitt af þeim tækjum sem eru notuð til að framkalla þessa eftirspurn og laða að hæfa fjárfesta, langtímafjárfesta. Til þess er leikurinn gerður. Það var ágætisumræða um þetta í Morgunútvarpinu á Rás 2 í síðustu viku. Þar sagði Snorri Jakobsson hagfræðingur, með leyfi forseta:

„Ríkið hefur líklega frekar viljað fá fagfjárfesta og einhverja langtímafjárfesta. Þú vilt kannski ekki selja einhverjum eignarhaldsfélögum sem eru mjög skuldsett og eru þá áhættusæknir eigendur.“

Já, það hefði maður haldið. En svo gerist það bara daginn eftir að það fara að fljóta upp á yfirborðið upplýsingar um það hverjir keyptu og það fyrsta sem við fáum eru upplýsingar um að þrír innherjar tengdir stjórn og yfirstjórn Íslandsbanka hafi keypt. Einn þeirra er t.d. sambýlismaður millistjórnanda í bankanum sem keypti hlut í gegnum eignarhaldsfélag sem er með neikvætt eigið fé upp á 135 milljónir samkvæmt síðasta ársreikningi og þar af eru 120 milljónir vegna skulda við tengda aðila. Hann er sem sagt einn af þessum hæfu fjárfestum, eflaust ágætismaður, en af hverju var hringt í hann en ekki einhvern annan? Og hvað ætli Bankasýslan og söluráðgjafarnir hafi hringt í marga? Hverjir fengu að fljóta með og hverjir ekki? Af hverju gátu þessir litlu aðilar ekki bara keypt á eftirmarkaði? Við erum að tala um fólk sem var kannski að kaupa fyrir 11 milljónir, 20 milljónir. Var þetta lokaða útboð ekki ætlað burðugum langtímafjárfestum? Hvernig var jafnræði eiginlega tryggt í þessu ferli? Mér finnst við í rauninni ekki hafa fengið neitt ofboðslega skýr svör við því hér í dag.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan í svari við ræðu hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, með leyfi forseta:

„Þegar hv. þingmaður spyr: Með hvaða rökum var litlum fjárfestum hleypt að? þá var þeim í sjálfu sér ekki hleypt að sérstaklega.“

Jú, þeim var hleypt að sérstaklega. Það er þannig sem svona tilboðsfyrirkomulag virkar, er það ekki?

Hér ætla ég að leyfa mér að vitna í minnisblað Bankasýslu ríkisins til fjármálaráðherra þar sem einmitt er farið yfir það sem Bankasýslan viðurkennir að séu ákveðnir gallar á tilboðsfyrirkomulagi, með leyfi forseta:

„Framangreint fyrirkomulag er því heimilt samkvæmt lögum nr. 155/2012. Það er þó ljóst að slíkt fyrirkomulag er ekki að fullu í anda meginregla laga nr. 155/2012 um opið söluferli og gagnsæi. Þannig njóta ákveðnir fjárfestar betri réttinda en aðrir ásamt því að almenningur getur ekki tekið beinan þátt og þar með ekki tryggt fullt jafnræði bjóðenda. Aftur á móti er um að ræða hefðbundna venju á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum sem talin er ákjósanlegasta aðferðin við áframhaldandi sölur til að hámarka verð og lágmarka áhættu.“

Ábyrgð þeirra sem sjá um söluna verður þá alveg sérstaklega rík í svona tilboðsfyrirkomulagi, það hlýtur að liggja í augum uppi, því að þarna er vikið frá þessari almennu reglu um opið söluferli. Eftir stendur kannski spurningin: Hver var tilgangur þess að fá þessa litlu fjárfesta? Af hverju fengu þeir að fljóta með? Taka þeir á sig einhverja umtalsverða markaðsáhættu? Eru þetta langtímafjárfestar? Eins og fram kom áðan þá eru þetta aðilar sem hefðu allt eins getað keypt á eftirmarkaði. Tilgangurinn með tilboðsfyrirkomulaginu var væntanlega ekki sá að leyfa nokkrum fagfjárfestum sem eru að fjárfesta fyrir sitt persónulega bókhald að fá smáafslátt. Afslátturinn er þá væntanlega til þess einmitt að laða að þessa stóru og hæfu fjárfesta.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra í bili. Ég kem kannski aftur upp á eftir.