152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hér í dag hefur verið málefnaleg og um margt mjög gagnleg. Það er ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegur hluti af sölu ríkiseigna að fylgja niðurstöðunni eftir með greinargerð og reyna að tryggja sem best gagnsæi. Þannig skilaði Bankasýslan á sínum tíma sérstakri skýrslu til þingsins um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka eftir fyrra útboðið. Þetta er skýrsla sem kom út fyrir ekki mjög löngu og í henni er nú að finna svör við sumum af þeim spurningum sem hafa komið fram í kvöld.

Ég ætla t.d. að koma inn á atriði sem snúa að verðlagningu í þessu útboði en töluvert hefur verið rætt um það að í útboðinu hafi falist eins konar afsláttur og er þá verið að horfa til þess að á markaði var eitthvert tiltekið viðskiptagengi opinbert, við lokun markaða þann dag sem útboðið var framkvæmt. Það er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að menn beri sig upp við síðasta skráða gengi, það er ekki nema eðlilegt. En eins og ég rakti í framsögu minni hér í dag og fyrr í kvöld þá verður að hafa fleira inni í myndinni þegar þessi samanburður er gerður og sérstaklega verður að horfa til þess hversu mikið magn er um að ræða í þessu tilviki. Þannig má halda því fram að í reynd hafi enginn afsláttur verið gefinn vegna þess að ekki var til neitt ákveðið verð fyrir framkvæmd á sölu fyrir rúma 50 milljarða á þessum stutta tíma. Hvert var rétta verðið frá því að markaðir lokuðu þar til markaðir opnuðu ef selja átti 22,5% hlut í bankanum? Hvert var rétta verðið? Var það einhvers staðar til skráð? Ég held að það sé nauðsynlegt, þegar menn velta þessu fyrir sér, að horfa til umfangs sölunnar. Ég hef nú rakið það hér áður að þetta hafi jafngilt 300 daga veltu, sem er langt umfram það sem hefur verið að meðaltali í sambærilegum tilvikum í Evrópu, þar sem menn hafa séð veltu sem jafngildir 39 dögum að meðaltali. Við getum notað annan mælikvarða. Við getum sagt að þetta útboð hafi verið margföld velta með hlutabréf í bankanum á þessu ári í Kauphöllinni, sem sagt heildarveltan. Það er í raun og veru sama á hvaða mælikvarða við mælum þetta, það er ekki auðvelt að halda því fram að áður en útboðið hófst þá hafi rétta verðið fyrir sölu á þetta stórum eignarhlut verið nákvæmlega lokagengi dagsins. En ég er ekki að gagnrýna að menn noti það sem viðmið og mér þykir það ekkert óeðlilegt og ég hef sjálfur vikið að því að á þann mælikvarða var afslátturinn 4,1%, sem er minna en hefur tíðkast í Evrópu.

Ef við lítum okkur nær og skoðum hvað hefur verið að gerast á Íslandi sjáum við að í Arion banka var síst um minni breytingar á verðinu að ræða frá því að hlutir voru seldir þar til að þeir voru komnir aftur í sölu á markaði. Hér er ég að koma aðeins inn á það sem gerist frá því að útboði er lokað þar til að bréf eru tekin til sölu á markaði, sem hefur verið rætt hér líka í dag og snýr að fyrri sölunni. Ef við veltum fyrir okkur verðbreytingum á hlutum frá því að frumútboð fer fram þar til bréf eru tekin til viðskipta þá segir um það í skýrslu Bankasýslunnar, frá því í febrúar, að hækkun eftir frumútboð hafi verið 19,7% hjá Íslandsbanka en 18,4% í Arion banka. Þar var ríkið ekki með aðkomu. Það er erfitt að halda því fram að þeir viðskiptamenn sem stóðu að baki skráningu á Arion banka hafi með opin augun tekið ákvörðun um að skrá bankann í þeim tilgangi að tryggja þátttakendum í útboðinu 18% afslátt, einhvers konar, af raunvirði. Það sem gerist einfaldlega við skráningu er að hlutafélög verða verðmætari. Við sjáum þetta ítrekað. Þetta er ein helsta ástæða þess að menn sækjast eftir því að skrá fyrirtæki sem uppfylla að öðru leyti skilyrði. Svo er ágætt að rifja upp, sem segir í skýrslu Bankasýslunnar, um þróunina frá skráningu á bréfum í Íslandsbanka annars vegar og Arion banka hins vegar. Þar má sjá að þróun á markaði frá skráningu var mjög áþekk milli Íslandsbanka og Arion banka frá því að Íslandsbanki var skráður, sem segir okkur að það voru markaðskraftar að verulegu leyti sem voru að baki breytingum á virði eignarhluta í Íslandsbanka. Það er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni og einn grundvöllur þess að við náðum góðri sölu í þessari umferð núna.

Hér hefur dálítið verið rætt um tilboðsfyrirkomulagið sjálft og vísað til þess að þetta hefur þótt vera áreiðanleg leið og mikið farin í öðrum löndum. Ég rakti þetta aðeins áðan. En þarna koma að málum söluráðgjafar og fjármálaráðgjafar Bankasýslunnar og áður en ákveðið er að ráðast í útboðið er reynt að nálgast líklega kaupendur, sérstaklega stóra langtímafjárfesta eins og lífeyrissjóði, til að meta fjárfestingaráhugann áður en ráðist er í sölu. Það var eftir að þetta hafði verið gert sem bankinn gaf út tilkynningu um að hann ætlaði að framkvæma útboðið. Hann hafði fengið vísbendingar um að það yrði góð eftirspurn. Eftir það ferli, sem gerist að verulegu leyti í samstarfi við ráðgjafa sem voru fengnir að borðinu, er hæfum innlendum og erlendum fjárfestum boðin þátttaka. Þetta hefur verið dálítið rætt hér í dag og spurt: Bíddu, hverjum nákvæmlega var boðin þátttaka? Ja, það er auðvitað að gerast í gegnum þetta víðtæka ráðgjafanet, söluráðgjafanet sem Bankasýslan hefur komið upp í kringum sig og það er á grundvelli opinberra yfirlýsinga um að útboðið sé hafið sem þessar snertingar eiga sér stað. Hér hefur verið rætt sérstaklega í dag, og ég hef aðeins komið inn á það áður, hvort það hafi verið rétt að hleypa að smærri hluthöfunum og þegar ég segi í dag að það hafi svo sem ekki verið tekin sérstök ákvörðun um það þá er ég bara að vísa til þess að ekki var sérstaklega falast eftir þeim, jafnvel þótt það hafi ekki verið sett lágmarksfjárhæðarmörk varðandi þátttökuna. Í því sambandi hef ég hér vísað til þess að hafa megi í huga að slíkir fjárfestar sem vildu kaupa fyrir tugi eða hundruð milljóna — nú þekki ég ekki öll þessi dæmi, ég hef ekki séð úthlutunina í sjálfu sér — voru í raun og veru bara útilokaðir frá almenna útboðinu. Þeir voru ekki að fá úthlutað. Þeir fengu í raun og veru meðhöndlun eins og almennir fjárfestar. Ég er ekki á nokkurn hátt að gagnrýna það, ég er bara að rifja það upp að í þeirri umferð var þeim nánast úthýst, getum við sagt. Það má spyrja sig í því samhengi hvort ástæða hafi verið til að gera það í þessari umferð sömuleiðis. En ég virði alveg sjónarmið þeirra sem segja að það hefði átt að vera einhver lágmarksþátttaka. Það er alveg gilt sjónarmið í þessari umræðu en ég held að þetta sé aðalskýringin.

Ég ætla ekki að fara út í skilgreiningar á hæfum fjárfestum. Það hefur verið vísað til þess hér í umræðunni að um það gilda lagaákvæði og þeir þurfa allir að vera á lista sem er hjá Seðlabankanum. Þátttaka innherja í kaupunum hefur, að því er mér sýnist, öll farið fram í samræmi við innherjareglur um það efni og gerist að öllu leyti á söluendanum, það eru ekki ákvarðanir sem eru teknar hjá Bankasýslunni þannig að því sé nú haldið til haga. — Ég ítreka aftur þakkir fyrir fína og málefnalega umræðu.