152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta vera útúrsnúningur, að taka mögulega lægstu tilboðin og segja: Það var til markaðsverð fyrir þessi tilboð. Við erum hér að tala um framkvæmd á risastóru útboðið þar sem ein meginregla átti að vera almennar reglur, jafnræði fyrir alla. Það er hins vegar látið í það skína hér að þá leið hefði mátt fara að taka einfaldlega öllu tilboðinu sem kæmi hæst inn og byrja svo bara éta sig niður eftir tilboðslistanum, og þá hefðu menn verið að taka þátt í ákveðnu veðmáli. Á sama tíma hefðum við, samkvæmt slíku fyrirkomulagi, látið kylfu ráða kasti með það hversu stóran eignarhlut einstakir aðilar myndu fá og sá sem byði hæst samkvæmt slíku fyrirkomulagi myndi bara fá allt sem hann vildi. En við vildum ekki framkvæma slíkt útboð og það stóð heldur aldrei til. Sú aðferð sem hér er farin, og við höfum verið að vísa til í umræðunni í dag að sé þekkt, gengur út á það að byggt á eftirspurn og hugmyndum um verð fyrir stóran eignarhlut þá sé á endanum ákveðið verð sem mæti þeim markmiðum sem að er stefnt. Það verð stendur til boða fyrir alla sem komast yfir þröskuldinn; að teljast hæfir og hafa boðið nægilega hátt til þess að uppfylla skilyrðin. Síðan, þegar við fáum frekari upplýsingar frá Bankasýslunni, geri ég ráð fyrir að það hafi verið ólíkar skerðingarreglur eftir tegund fjárfesta eða eftir fjárfestahópum sem réðu, þar sem þeim hefur verið ívilnað sem voru líklegri til að standa lengur með fjárfestingunni en öðrum, bara alveg eins og átti við í útboðinu sem ég var að vísa til á síðasta ári. Þetta svarar vonandi spurningunni.